Ætlar ekki að mæta á fundina

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins ætlar sér ekki að mæta á fundi undirbúningsnefndar fyrir rannsókn kjörbréfa vegna hagsmuna flokks síns, en hann ásamt Hönnu Katrínu Friðriksson er áheyrnarfulltrúi í nefndinni.

Á fundargerðum undirbúningsnefndar sem birtast á vef Alþingis kemur fram hverjir það eru sem sækja fundina hverju sinni. Athygli hefur vakið að Sigmundur hefur ekki mætt sem áheyrnarfulltrúi á einn fund.

Ákvað að vera hlédrægur

„Ég geri ekki ráð fyrir að mæta. Ég ákvað að vera hlédrægur áheyrnarfulltrúi og fá að fylgjast með úr fjarlægð,“ segir Sigmundur í samtali við blaðamann.

Inntur eftir því hvers vegna hann vilji ekki sækja fundina segir hann það varða niðurstöður kosninganna, þá nánar tiltekið hagsmuni flokksins. Telur hann óviðeigandi að hann skipti sér af störfum nefndarinnar enda sé hann ekki nefndarmaður.

Eftir endurtalningu í Norðvesturkjördæmi varð uppstokkun meðal þingmanna Miðflokksins, rétt eins og annarra flokka, en Bergþór Ólason fékk þá sæti á kostnað Karls Gauta Hjaltasonar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert