Skólameistari Borgarholtsskóla segir að verr hefði getað farið í slagsmálum sem brutust út í skólanum í byrjun árs sem voru svo ofsafengin að kalla þurfti til lögreglu, sérsveit og starfsfólk slökkviliðs. Hann segir mikilvægt að íslenskt samfélag læri af atvikinu.
„Þetta getur gerst aftur, það er málið, þannig að við verðum að læra af þessu,“ sagði Ársæll Guðmundsson skólameistari á ráðstefnu slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu í dag.
Árásin var eins konar uppgjör á milli hópa ungra manna sem höfðu tekist á nokkru áður. Þeir höfðu ætlað sér að hittast skammt frá skólanum en þar sem annar hópurinn mætti ekki þar ákvað hinn hópurinn að leita þá uppi í Borgarholtsskóla. Þá hófust slagsmál inni á salerni en þegar tveir fullorðnir vopnaðir einstaklingar úr sitt hvorum hópnum birtust „þá fer þetta bara í algjört rugl,“ sagði Ársæll.
„Það sem virtist í upphafi vera slagsmál milli nokkurra drengja breyttist í árás þar sem lífshættulegum vopnum var beitt miskunnarlaust.“
Mennirnir voru vopnaðir hafnaboltakylfu og tveimur stórum veiðihnífum. Þá höfðu einstaklingar úr hópunum sem tókust á farið inn á málmsmíðaverkstæði Borgarholtsskóla og náð sér í afklippur af járni. Nú hefur verkstæðinu verið lokaður fyrir utanaðkomandi aðilum.
Ársæll sagði að viðbrögð starfsfólks á svæðinu hefðu verið góð. Ef starfsfólk hefði lagt á flótta þegar það sá hnífana, eins og það lærði á sjálfsvarnarnámskeiði ári áður, sagði Ársæll að líklegt sé að verr hefði farið.
„Ef við hefðum farið eftir því þá hefðu orðið þónokkur mannslát eftir þennan dag. Þarna bregst starfsfólkið við og bjargar nemendum.“
Þá þakkaði hann viðbragðsaðilum, lögreglu, slökkviliði og sérsveit sérstaklega fyrir fumlaus viðbrögð.
Ársæll sagði að Borgarholtsskóli væri samfélag, rétt eins og aðrir framhaldsskólar. Ungmenni sem eiga ýmiss konar bakgrunn stunda nám í framhaldsskólum landsins, þeirra á meðal ungmenni sem eiga erfitt uppdráttar.
„Í þessu samfélagi, eins og í öllum samfélögum, verða átök á milli einstaklinga. Það eru alls konar einstaklingar hérna. Upp til hópa frábært fólk [...] við viljum hjálpa þeim öllum.“