„Þarna var hugsað: lifi ég til morguns?“

Ingi segir það þyngra en tárum taki að horfa til …
Ingi segir það þyngra en tárum taki að horfa til Afganistan nú, vitandi hve mikil vinna hefur farið í súginn við að byggja upp landið. Ljósmynd/Aðsend

Ingi Þór Þorgrímsson gegndi mikilvægu hlutverki við brottflutning fólks frá Kabúl í Afganistan eftir að borgin féll í hendur talíbana í ágúst síðastliðnum. Hann varð vitni að þeirri gríðarlegu örvæntingu sem greip um sig meðal almennings þegar ljóst var að talíbanar höfðu náð öllum völdum í landinu. Fólk var tilbúið að gera nánast hvað sem var til að komast í burtu.

Hann starfar við flugvallarsvið innkaupastofnunar NATO sem sá meðal annars um rekstur flugvallarins í Kabúl. Hann starfaði beint við flugvallarreksturinn, hafði umsjón og eftirlit með öllum þáttum flugvallarins og starfseminni þar.

„Svo þegar allt fer á verri veg fáum við það hlutverk að halda flugvellinum opnum og nothæfum fyrir hjálparflug. Bæði var um að ræða brottflutning fólks og að koma inn í landið brýnum nauðsynjum á borð við mat, vatn og slíkt. Við héldum flugvellinum opnum allt fram á síðasta dag. Svo til hliðar, sem breyttist í aðalhlutverkið, að koma burt eins mörgum sem voru í hættu og hægt var,“ útskýrir Ingi, en á tæpum tveimur vikum tókst að flytja á brott 130 þúsund manns. Alþjóðlegur liðsafli varð að vera farinn úr landi þann 31. ágúst og öllum brottflutningi varð að vera lokið fyrir þann tíma.

Í mörgum tilfellum þurfti að skilja fjölskyldur að og enn …
Í mörgum tilfellum þurfti að skilja fjölskyldur að og enn er óvíst hvort takist að sameina þær aftur. Ljósmynd/Aðsend

Ingi gat hjálpað fjölmörgum en það þurfti að forgangsraða fólki og það var erfitt. Enn erfiðara var að neyðast til að hverfa á braut á meðan tugþúsundir Afgana, ef ekki hundruð þúsundir, biðu enn og báru von í brjósti um að komast á brott. Á meðal þeirra sem Ingi liðsinnti var fólk á leið til Íslands, bæði íslenskir ríkisborgarar og þau sem íslensk stjórnvöld höfðu samþykkt að taka á móti, til dæmis afganskt starfsfólk Atlantshafsbandalagsins (NATO) og fyrrverandi nemendur við Alþjóðlega jafnréttisskólann á Íslandi GRÓ-GEST. Var Ingi í nánum samskiptum við borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins og fastanefnd Íslands hjá NATO á meðan.

Farið að bera á örvæntingu nokkru áður

„Það lá nokkuð ljóst fyrir að talíbanar voru ekki með hlýjar kveðjur handa þeim sem höfðu unnið með vestrænum stofnunum. Þá er ég ekki bara að tala um alþjóðaliðið, heldur sendiráð, hjálpastofnanir, Sameinuðu þjóðirnar og fleiri. Þetta er bara þannig ofstækisfólk að allt sem ekki samrýmist þeirra ítrustu trú er trúvilla. Það sem var að gerast var að fólk reyndi í örvæntingu sinni að flýja. Það sá bara lífi sínu ógnað undir þessum nýju stjórnvöldum.“

Aðstæður á Kabúlflugvelli voru, að sögn Inga, verri en hægt er að gera sér hugarlund. Vesturlandabúar sáu myndir af fólki ryðjast inn á flugvöllinn í þeirri von um að komast um borð í flugvélar. Það var ein birtingarmynd örvæntingar fólksins. En starfsmenn flugvallarins voru farnir að sjá bera á örvæntingunni þó nokkru áður en Kabúl féll, enda ljóst í hvað stefndi. Aðeins var hægt að komast flugleiðina úr landi og borgaraleg flug voru uppbókuð langt fram í tímann af fólki reyndi að forða sér. Á meðan bárust fréttir af landsbyggðinni hvað var að gerast og ljóst að sagan var að endurtaka sig frá því talíbanar voru áður við völd. Þegar borgaraleg flug lögðust af var aðeins hægt að komast í burtu með herflugvélum

„Svo þegar Kabúl fellur, nær fyrirvaralaust, þá greip þessi rosalega örvænting um sig, að reyna að komast úr landi, komast í burtu. Það eru engar ýkjur að segja að þarna voru hundruð þúsunda manna sem töldu lífi sínu og fjölskyldna sinnar ógnað og höfðu það eitt á dagskrá að komast á brott, hvert sem er, hvernig sem er.“ 

Aleigan var í einum plastpoka

Komið var upp loftbrú á milli Kabúl og þeirra landa sem hugðust taka við fólki, en á milli 20 til 30 þjóðir lögðu til flugvélar í flutninginn, Bandaríkjamenn langflestar, að sögn Inga. Vöruflutningavélum var breytt í farþegaflugvélar. 200 til 240 manns var komið fyrir í vélum sem venjulega taka 50 manns. „Fólk sat flötum beinum á gólfinu og svo var flogið með fólk á áfangastaði þar sem varð að útvega húsaskjól, mat og drykk. Þetta var heilmikil aðgerð og þau aðildarríki NATO sem að þessu stóðu unnu þrekvirki í því að úgvega það sem til þurfti á svona skömmum tíma. Það lögðu sig allir fram um að gera sitt besta.“ Á tímabili þurfti jafnframt að fæða um 30 þúsund manns innan girðingar flugvallarins, en fljúga þurfti öllum vistum beint inn á svæðið frá bandalagsþjóðunum.

Reynt var að forgangsraða þannig að þeir sem voru í mestri hættu kæmust burt sem fyrst. Fólk sem starfaði hjá alþjóðastofnunum og hjálparsamtökum, fólk í starfsþjálfun, túlkar, leiðsögumenn og starfsmenn menntastofnanna, ekki síst konur sem höfðu tengsl við Vesturlönd. Allt þetta fólk var í bráðri lífshættu og var efst á forgangslistanum ásamt fjölskyldum með börn.

„Þetta var mjög þrúgandi ástand því fólk reyndi allt sem það gat. Það var að rétta börnin sín yfir hliðin og hugsaði: bjargið börnunum þó við komumst ekki. Fólk reyndi að komast yfir girðingar eða gegnum hlið. Hvernig sem var. Tugir þúsunda manna. Það voru 10 til 20 þúsund manns fyrir utan öll þrjú flugvallarhliðin. Til að bæta gráu ofan á svart stafaði mikil ógn af hryðjuverkamönnum sem vildu valda sem mestu tjóni. Við lentum til dæmis í einni sjálfsmorðssprengingu við hliðið. Ýmsar ógnir steðjuðu því að. Að geta ekki hjálpað öllum tekur alltaf á mann,“ segir Ingi til að reyna að gera grein fyrir þeim áskorunum sem þeir sem unnu að flutningnum stóðu frammi fyrir.

„Þarna voru fjölskyldur sem komu að með börn, gamalmenni og nánast alla stórfjölskylduna. Aleigan var í einum plastpoka, persónuskilríki og vegabréf svo fólk gæti gert grein fyrir sér. Allt annað var skilið eftir.“

Erfitt að ná bara hluta af fjölskyldu

Eins og gefur að skilja þótti Inga erfitt að þurfa að forgangsraða fólki þar sem það stóð fyrir framan hann og grátbað um hjálp. „Það var ekki eins þetta væri tekið fyrir í einhverju kerfi og menn gætu falið sig á bakvið tölvupóst eða það að þurfa ekki að horfast í augu við fólk. Við stóðum augliti til auglits við fólkið. Það var þyngra en tárum taki að ná hluta af fjölskyldunni, en ekki allri. Fólk hafði þann valkost að fara úr landi og bjarga lífi sínu en skilja fjölskylduna eftir, eða fara heim og eiga á hættu að vera drepnir. Einn starfsmaður hjá okkur orðaði það þannig að hann hafði tvo valkosti; að skilja fjölskylduna eftir en hinn var að fara heim og gera konuna sína að ekkju því hann yrði drepinn í hvelli, því hann var að vinna hjá okkur í sérfræðistarfi, eða kannski öll fjölskyldan.“

Þegar þurfti að standa frammi fyrir þessum valkostum segist Ingi hafa hugsað til þess hvað við höfum það gott að búa í friðsælu ríki, þó vissulega megi ýmislegt betur fara.

Mikil örvænting greip um sig þegar Kabúl féll í hendur …
Mikil örvænting greip um sig þegar Kabúl féll í hendur talíbana og fólk var tilbúið að gera nánast hvað sem var til að komast á brott. Ljósmynd/Aðsend

„Margir sem við liðsinntum orðuðu það svo: hvers konar eiginmaður og faðir er ég að skilja fjölskylduna eftir í landinu og ég flý til að bjarga lífi mínu. Ég get eiginlega ekki sagt að það sem við sáum og upplifðum hafi verið erfið lífsreynsla, því við vorum í raun þátttakendur í þessari andlegu kvöl og pínu sem okkar starfsmenn og vinir voru að ganga í gegnum. Það var allt upp á líf og dauða. Það var ekki verið að hugsa um launahækkanir eða eftirlaun. Þarna var hugsað: lifi ég til morguns?“

Ingi segir enn óljóst hvort takist að sameina einhverjar af þeim fjölskyldum sem þurfti að skilja í sundur með þessum hætti. Enda sé í raun engin stjórn í Afganistan og samskipti við talíbanastjórnina lítil sem engin. Opinberlega sé ekkert skilgreint starf við að sameina fjölskyldur en í höfuðstöðvum NATO starfi þó vinnuhópur sem reynir að vera til staðar og aðstoða fyrrverandi starfsmenn eftir þörfum. Það sé þó hægara sagt en gert þar sem það sé í raun enginn til að semja við.

„Þetta er jafn lokað og Norður-Kórea í dag. Flestar fjölskyldur þessa hóps eru í felum til að halda lífi. Og það sem er kannski sárast er að núna er þetta ekki í brennidepli heimsfréttanna. Nú er bara verið að spá í kosningaúrslitum í Þýskalandi eða hvort opnað verði fyrir ferðalög til Nýja-Sjálands. Þetta virðist gleymt og þetta fólk er þarna yfirgefið. Það er mikil og krefjandi vinna eftir við að sameina fjölskyldur og annað. Hversu mikið það er í okkar valdi að liðsinna því er alveg óvíst.“

Hefur ekkert með trúna að gera

Líkt og áður sagði steðjaði mikil ógn að flugvallarsvæðinu, þar sem hryðjuverkasamtök gerðu árásir bæði á hermenn og óbreytta borgara. Svæðið sem alþjóðaliðið hafði til umráða var á stærð við athafnasvæðið á Reykjavíkurflugvelli, að sögn Inga. „Um þetta svæði fluttum við þúsundir einstaklinga og gættum öryggis í leiðinni. Það sem við fólk á Vesturlöndum gerir sér ekki grein fyrir þegar við sitjum og horfum í austur er að öfgahreyfingarnar þarna eru margar. Þetta eru ekki bara talíbanar. Þeir eru í ákveðnu yfirráðstríði við aðrar islamskar öfgahreyfingar eins og al-kaída og ISIS og þeir eru svo í stríði sín á milli. Þótt talíbanarnir væru ekki að ráðast á okkur var það hinna hagur að gera einhvern óskunda til að sýna og sanna að talíbanar réðu ekki og þeir gætu gert það sem þeir vildu. Það voru fjölmargir þættir sem þurfti að taka tillit, “ útskýrir Ingi, en fyrir vikið varð brottflutningurinn enn meiri áskorun.

Ingi segir þó alls ekki mega setja samasemmerki á milli Afgana og þessara öfgahópa. Líta verði á heildarmyndina. „Þetta er svo ofboðslega flókin mynd af hagsmunum og pólitík. Allir þeir Afganir sem ég hef kynnst þau 17 ár sem ég hef verið þarna eru indælis fyrirmyndafólk. Hvort sem fólk er kristinnar trúar, islamstrúar, hindúar eða búddistar eða hvað. Hjá 99 prósent af fólki skiptir það ekki máli,  þetta er bara fólk sem á sín eðlilegu samskipti. En þarna erum við að eiga við einhverja mestu öfgahópa í heiminum sem er hver að gæta sinna hagsmuna. Ég get aldrei sagt að þetta hafi að gera með trúna sem slíka. Þetta er af afbökun á trúnni sem menn setja fram sér til hagsbóta.“

Fólk dó í hitanum og kraðakinu

Ingi varð bæði beint og óbeint vitni að hörmulegum atburðum sem áttu sér stað þessar tæpu tvær vikur, allt frá því Kabúl féll í hendur talíbana og þangað til vestrænt herlið og friðargæsluliðar hurfu á braut frá Afganistan. Hann sá með eigin augum hvernig örvæntingin varð til þess að fólk var nánast tilbúið að gera hvað sem var til að komast úr landi. Jafnvel hanga á flugvélum sem voru að taka á loft. Sumum reyndist biðin og troðningurinn í hitanum við hliðin líka einfaldlega ofraun. „Fólk sem beið þarna í 35 til 40 stiga hita, þeir sem voru veikir fyrir, þeir dóu bara við hliðið. Fólk dó í biðröðinni, eða öllu heldur kraðakinu, því það var auðvitað engin biðröð þarna, þetta var bara öngþveiti þar sem allir voru að reyna að komast framfyrir þann næsta.”

Hann segir nauðsynlegt í þessum aðstæðum að brynja sig upp fyrir því sem er að gerast. Annars geti fólk ekki sinnt starfinu sínu.

10 til 20 þúsund manns voru fyrir utan öll þrjú …
10 til 20 þúsund manns voru fyrir utan öll þrjú flugvallarhliðin á Kabúlflugvelli. Ljósmynd/Aðsend

„Það er ekki eins maður hafi stjórn á aðstæðum þannig það er ekkert annað gera en að setja upp brynju og gera það sem maður getur. Sætta sig við að það eru önnur öfl sem ráða meiru um það sem er að gerast en þú sjálfur. Þú gerir bara þitt besta og verður að snúa heim þokkalega sáttur við það. Þú hefur gert allt sem í þínu valdi stóð. Annað myndi gera mig vitlausan.“

Ingi býr líka yfir áratugareynslu af björgunarsveitarstarfi innan Flugbjörgunarsveitarinnar í Reykjavík og segir þá reynslu og þjálfun sem hann fékk þar hafa undirbúið hann vel til að takast á við mjög krefjandi aðstæður. Þá hafi áfallahjálpin sem hann fékk sem björgunarsveitarmaður skipt sköpum. 

„Það er einhver albesti undirbúningur sem maður getur haft, að hafa góðan bakgrunn úr því björgunarsveitastarfi sem er hér á landi. Það er mjög vel staðið að öllu því sem snertir andlega hlið björgunarfólks og hefur verið lengi og það gagnast mjög vel í þessum aðstæðum.“

Upplifði að hann hefði brugðist

Þeir sem unnu að brottflutningnum voru í kapphlaupi við tímann og ljóst var frá upphafi að ekki tækist að flytja á brott nema lítinn hluta af þeim fjölda sem þurfti að komast í burtu eða vildi fara. Það mátti engan tíma missa og unnið var sleitulaust að markmiðinu; að koma sem flestum úr landi á meðan loftbrúin var opin.

Í ágústlok þurfti svo einfaldlega að loka hliðunum endanlega og segja stopp. Fleiri var ekki hægt að flytja á brott í bili. Tíminn var á þrotum og vonarneistinn í brjóstum þeirra sem enn biðu, slokknaði. Starfsfólk NATO fór með síðustu herflugvélunum frá flugvellinum í Kabúl. Allir uppgefnir á líkama og sál eftir að hafa unnið dag og nótt og varla gefið sér tíma til að matast í tvær vikur. 

„Það var ekkert val, það var síðasta vélin og við vorum í henni.“ Ingi segir erfitt að lýsa því hvernig honum leið á þeim tímapunkti. „Þetta var sárt og það voru vonbrigði. Maður upplifir að vissu leyti að maður sé að svíkja fólkið, að maður hafi brugðist því. Þá verður maður bara að hugsa sig um og enn og aftur segja: ég gerði allt sem í mínu valdi stóð. Hitt er utan við það. Svo er bara málið að sætta sig við það. En það sem er kannski erfiðast núna þegar þetta er komið í þessa stöðu að það er ekkert hægt að gera, maður getur ekkert gert til að hjálpa þessu fólki. Landið er alveg lokað og ef maður reynir að setja sig í samband við fólk eða reynir að hafa uppi á því, þá er maður kannski að setja það í lífsháska.“

Manngæskan skipti sköpum í hjálparstarfinu

Ingi segir það þyngra en tárum taki að horfa til Afganistan nú, vitandi hve mikil vinna hefur farið í súginn við að byggja upp landið. „Við stefndum að og ætluðum að gera aðra hluti og betri, hjálpa landsmönnum að byggja upp samfélag sem hvílir á frelsi, mannréttindi, menntun og öðrum gildum sem við teljum sjálfsögð. Þetta er bara eins og að yfirgefa sökkvandi skip. Það kemur að þeim tímapunkti að þú þarft að koma þér í bátana og það komast ekki allir. Ég held að við öll sem störfuðum á þessum vettvangi höfum haft mikla trú á því sem við vorum að gera. Við trúðum því að það væri von. Fólkið sem við unnum með hafði bæði væntingar og metnað fyrir sínu landi. Það lærði og gerði ótrúlega vel í að byggja upp samfélagið. Síðan er allt þetta brotið á bak aftur með ofstæki og öfgahyggju. Það eru vonbrigði að þetta hafi farið svona illa. En það er ekki af því afganska þjóðin lagði sig ekki fram, það lögðu sig allir fram við að gera góða hluti. Þetta er pólitísk ákvörðun, alþjóðapólitík sem þarna er á ferðinni og allt aðrir hagsmunir en þeir sem við vorum að sinna.“

Ingi segist þó upplifa blendnar tilfinningar, enda hafi hann komið fjölmörgum til hjálpar líka. „Ég er er sáttur við og að vissu leyti stoltur að hafa átt þátt í að hjálpa svona mörgum, en um leið upplifi ég mikil vonbrigði og sorg yfir því að það voru svo miklu, miklu fleiri sem maður hefði viljað koma til hjálpar. Ef við hefðum haft tíma hefðum við getað komið þúsundum til viðbótar til hjálpar og komið úr landi. Það voru bara ekki aðstæður til.“

Hann tekur fram að ótal einstaklingar og fjölmörg ríki hafi unnið ómetanlegt starf og lyft grettistaki við koma brottflutningi alls þessa fólks til leiðar. „Það má eiginlega segja að heimsbyggðin hafi sameinast um að leggja til allt sem hún gat í björgunarstarfið. Þannig gekk þetta upp. Þrátt fyrir allar þessar hörmungar sá maður það að þessi góðu öfl og manngæskan átti verulega stóran þátt í að bjarga því sem bjargað var.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka