Tilkynningum um aukaverkanagrun fjölgar um 2.000

Ljósmynd/Lyfjastofnun

Lyfjastofnun hafa nú borist ríflega 2.000 tilkynningar vegna gruns um aukaverkun frá Embætti landlæknis. Þetta kemur fram á vef Lyfjastofnunar. Langflestar tilkynninganna virðast ekki vera alvarlegar, miðað við tölfræði Lyfjastofnunar.

„Embætti [landlæknis] hefur safnað gögnunum saman frá því hafist var handa við bólusetningar gegn COVID-19 í lok síðasta árs. Þessar upplýsingar hafa nú verið sendar Lyfjastofnun og nú stendur yfir skráning þeirra í aukaverkanagrunn Lyfjastofnunar samkvæmt leiðbeiningum um lyfjagát,“ segir á vef Lyfjastofnunar.

„Allar tilkynningarnar varða einstaklinga sem hafa verið bólusettir en hafa greinst með COVID-19 smit. Þessar upplýsingar hafa áður birst í daglegum smittölum frá sóttvarnalækni en hafa ekki verið færðar inn í aukaverkanagrunn Lyfjastofnunar fyrr en nú.“

224 alvarlegar tilkynningar

Alls hafa Lyfjastofnun borist 4.144 tilkynningar vegna gruns um aukaverkun í kjölfar bólusetningar gegn Covid-19. Af þessum tilkynningum eru 224 alvarlegar. 

Flestar tilkynninganna varða bóluefni Pfizer/BioNTech en það er það bóluefni sem hefur verið notað mest hérlendis. 

Lyfjastofnun setur eftirfarandi fyrirvara við lestur, túlkun og notkun upplýsinganna:

  1. Fjöldi tilkynninga skal skoðaður í samhengi við fjölda þeirra sem bólusettir hafa verið. Upplýsingar um fjölda bólusettra með hverju bóluefni fyrir sig má finna á covid.is.
  2. Mikilvægt er að að hafa hugfast að fjöldi tilkynninga vegna gruns um aukaverkun segir ekki til um tíðni raunverulegra aukaverkana eftir bólusetningu eða öryggi bóluefna. Slíkar tilkynningar eru notaðar til að fylgjast með öryggi lyfja eftir að notkun þeirra hefst og er það gert m.a. með því að meta hvort líkur séu á því að orsakasamband sé milli lyfjanotkunar og þess tilviks sem tilkynnt er. Þannig er ekki víst að tilkynningarnar endurspegli raunverulegar aukaverkanir af bóluefnunum en það er metið í hverju tilfelli fyrir sig. Þekktar aukaverkanir allra bóluefnanna má finna í fylgiseðlum þeirra í sérlyfjaskrá.
  3. Þar sem bóluefnin hafa ekki borist á sama tíma er óhjákvæmilegt að ólíkt samsettir hópar fái mismunandi bóluefni. Það gerir beinan samanburð milli þeirra ómögulegan. Í fyrstu forgangshópum bólusetningar var meðal annars heilbrigðisstarfsfólk, en því ber skylda til að tilkynna um aukaverkanir samkvæmt lyfjalögum og hefur þessi skylda áhrif á fjölda tilkynninga, og þá til fjölgunar þeirra, að mati Lyfjastofnunar. Auk heilbrigðisstarfsmanna voru aldraðir einstaklingar fremstir í forgangi bólusetningar. Margir þeirra hafa undirliggjandi sjúkdóma. Því má búast við fleiri tilkynningum vegna bólusetningar í þeim hópi, en hins vegar þarf ekki að vera um orsakasamband að ræða milli bólusetningar og tilkynntra tilvika.  Slíkt er metið í hverju tilfelli fyrir sig. Aldursdreifingu fyrir hvert bóluefni má sjá á covid.is.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert