Akureyringar horfa nú til norðurs þegar kemur að framtíðarbyggingasvæðum undir íbúðir. Tvö ný íbúðahverfi eru í burðarliðnum í bænum, mislangt á veg komin, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.
Annars vegar er Holtahverfi norður þar sem þegar hefur verið auglýst eftir umsóknum um lóðir og framkvæmdir við gatnagerð og lagnir hefjast innan tíðar. Hins vegar er um að ræða nýtt hverfi vestan Borgarbrautar, ofan Síðuhverfis og í framhaldi af Giljahverfi, enn sem komið er nefnt Kollugerðishagi. Gert er ráð fyrir að um 300 íbúðir verði reistar í Holtahverfi en allt að 970 í Kollugerðishaga.
Fyrstu lóðir hafa verið auglýstar í Holtahverfi, en alls voru í fyrsta áfanga auglýstar 22 lóðir. Mikill áhugi reyndist vera á lóðum, en umsóknir bárust frá 33 einstaklingum og 15 lögaðilum. Lóðum verður úthlutað á fundi skipulagsráðs í næstu viku. Dregið verður um þær lóðir þar sem fleiri en ein umsókn bárust. Vinsælasta lóðin var einbýlishúsalóð, Hulduholt 21, en um þá lóð voru alls 18 umsóknir. Í þessum fyrsta áfanga Holtahverfis verða að lágmarki 140 íbúðir í fjölbýlis-, rað-, par- og einbýlishúsum.
Til viðbótar við lóðirnar 22 sem nú voru auglýstar hefur húsnæðissamvinnufélagið Búfesti, í samvinnu við Félag eldri borgara á Akureyri, fengið vilyrði fyrir lóð undir fjögur fjölbýlishús sem ætlunin er að byggja upp á allt að fjórum árum.