Fyrsti dagur vetrar er í dag en veðrið á landinu ber þess varla merki. Veður í dag verður aðgerðalítið og milt, hæg suðlæg átt og dálítil væta á víð og dreif, en rofar til á Norður- og Austurlandi síðdegis.
Þetta kemur fram í hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofu Íslands.
„Austlægari vindar á morgun og áfram rigning víða um land, en þurrt á Norðurlandi fram eftir degi. Gengur í allhvassa eða hvassa norðaustanátt á Vestfjörðum annað kvöld. Norðlægari vindar á mánudag, dálítil él fyrir norðan og súld eða rigning öðru hvoru syðra, en kólnar heldur,“ segir í hugleiðingunum.
Veðurhorfur á landinu næstu daga, samkvæmt Veðurstofu Íslands
Á mánudag:
Norðlæg eða breytileg átt 5-13 m/s, en norðaustan 13-18 NV-lands fram eftir degi. Lítilsháttar væta með köflum, en dálítil él fyrir norðan. Hiti 0 til 6 stig að deginum.
Á þriðjudag:
Gengur í austan 10-18 og fer að rigna, talsverð rigning A-til eftir hádegi. Lægir og dregur úr vætu á S-verðu landinu seinnipartinn. Hiti 1 til 8 stig.
Á miðvikudag:
Ákveðin norðaustanátt og rigning eða slydda á Vestfjörðum, annars mun hægari og væta með köflum. Hiti breytist lítið.
Á fimmtudag og föstudag:
Austlæg átt og rigning með köflum, en lengst af úrkomulítið á N-landi. Hiti 1 til 6 stig.