Yngst til að klára heilan Ironman

Ísold segir það hafa verið magnað að koma í mark, …
Ísold segir það hafa verið magnað að koma í mark, en hún er yngst íslenskra kvenna til að klára heilan Ironman.

Ísold Norðfjörð er 25 ára læknanemi við Háskóla Íslands með brennandi áhuga á þríþraut. Það er nóg að gera hjá henni, en hún er á fjórða ári í læknisfræði og er nú í verknámi inni á spítala sem hún segir mjög áhugavert.

Einnig þjálfar hún þríþraut hjá Ægi3 og hjólatíma hjá World Class. Hún hefur alla tíð haft áhuga á íþróttum og heilbrigðum lífsstíl.

Markmiðasetning mikilvæg

„Það er svo mikilvægt að setja sér markmið, þá verður sigurinn svo sætur,“ segir Ísold og leggur áherslu á að maður eigi jafnvel að setja sér stórt markmið sem maður telji sig ekki geta náð og taka það í litlum skrefum.

Ísold var ekki góð í sundi fyrr en hún fór …
Ísold var ekki góð í sundi fyrr en hún fór að þjálfa fyrir þríþraut.

„Það gerði ég fyrir þennan hálfa Ironman í Austurríki; þetta var risamarkmið!“ segir hún.

„Í hálfum Ironman er sundið 1.900 metrar í sjó eða stöðuvatni, 90 kílómetrar á hjóli og hlaupið 21,1 kílómetri eða hálft maraþon. Ég fór þetta í Zell am See í Austurríki og það var rosalega gaman. Það er svo mikilvægt að hafa gaman, það er númer eitt, tvö og þrjú. Þetta var virkilega sætur sigur; tilfinningin að klára keppni er ólýsanleg. Ég hugsaði strax; „hvenær er næsta keppni?““ segir Ísold.

Fjölskyldan er saman í þríþraut og fer oft saman í …
Fjölskyldan er saman í þríþraut og fer oft saman í keppnir. Hér má sjá frá vinstri Nökkva Norðfjörð, Örnu Hansen, Guðjón Norðfjörð, Svein Þráin Guðmundsson, Ísold Norðfjörð og Ísak Norðfjörð.

„Næst ákvað fjölskyldan að skrá sig aftur í hálfan Ironman í Cervia á Ítalíu og sú keppni átti að fara fram haustið 2020 en auðvitað var henni frestað um ár vegna Covid. Þá ákvað ég ásamt pabba og Sveini að breyta skráningunni í heilan Ironman því ég sá fyrir mér að ég hefði góðan tíma til að æfa, bæði um veturinn og yfir sumarið,“ segir Ísold og segist hafa æft að minnsta kosti einn til tvo tíma á dag og inn á milli tók hún lengri æfingar, allt upp í átta klukkustundir.

Yngst íslenskra kvenna

Um miðjan september 2021 hélt fjölskyldan út til Ítalíu en keppnisdagurinn var 18. september. Ísold kláraði heilan Ironman með glans en það eru 3.800 metra sund í sjó, 180 km hjól og 42,2 km hlaup eða heilt maraþon.

 „Þetta var erfitt en þó auðveldara en ég hélt,“ segir hún en kærastinn og faðir hennar fóru einnig heilan Ironman og móðir hennar tók svokallaða ólympíska þríþraut.

 „Í hlaupinu leið mér fyrst vel en lenti svo í orkuskorti eftir 26 kílómetra. Ég náði samt að klára en kollurinn var bara þar; ég ætlaði að klára hvort sem ég myndi labba, hlaupa eða skríða,“ segir hún og segir það magnaða tilfinningu að koma í mark.

Ísold stefnir á annan Ironman enda eru sigurinn sætur þegar …
Ísold stefnir á annan Ironman enda eru sigurinn sætur þegar hún kemur í mark.

„Þarna voru pabbi og Sveinn komnir í mark og mamma og bræður mínir að taka á móti mér. Allir með tárin í augunum. Það er eiginlega ekki hægt að lýsa þessari tilfinningu,“ segir Ísold sem varð með þessu yngst íslenskra kvenna til að klára heilan Ironman.

 „Þetta hvetur mann svo áfram og ég tek keppnisskapið og þrautseigjuna með mér í alls konar annað í lífinu, í þjálfun, nám, vinnu og fleira. Ég, ásamt fleirum í fjölskyldunni, er búin að skrá mig í annan heilan Ironman að ári.“

Ítarlegt viðtal er við Ísold í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert