„Allir þurfa að huga að eigin öryggi“

„Lærdómurinn er aðallega sá að það þarf að aðlaga löggjöfina okkar hlutverki. Það mun taka einhvern tíma en maður finnur að það er alla vega mikill vilji yfirvalda að stíga skref og skýra og skerpa hlutverk þeirra sem þarna koma að, sem eru þá húseigendur og eftirlitsaðilar,“ segir Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri á höfuðborgarsvæðinu, um hvaða lexíu megi draga af eldsvoðanum á Bræðraborgarstíg 1.

Á föstudag og í gær fór fram námstefna Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna. Eitt af erindunum sem komu fram á föstudag var eldsvoðinn á Bræðraborgarstíg og var þá meðal annars fjallað um aðkomu og úrræðaleysi slökkviliða gagnvart byggingum sem þessum og hvað hefur verið gert til að fyrirbyggja að slíkir atburðir endurtaki sig.

Að sögn Jóns Viðars hafa ýmsar tillögur komið fram um hvernig megi standa að þessu. Meðal annars hafi 13 úrbætur verið kynntar í skýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar um úrbætur í brunavörnum. Þar er meðal annars kveðið á um að tryggt verði að íbúðarhúsnæði sé ekki tekið í notkun fyrr en að lokinni öryggisúttekt, að óleyfisbúseta verði kortlögð með ítarlegum hætti og meiri vitundarvakningu meðal almennings um brunavarnir á heimilum.

„Aðalskilaboðin eru þau að allir þurfa að huga að eigin öryggi. Menn verða að velta fyrir sér – er reykskynjari í rýminu þar sem ég er, kann ég flóttaleiðirnar í húsnæðinu? Svo þarf húseigandi sem á mannvirkið að vera meðvitaður um sína ábyrgð,“ segir Jón Viðar.

Sektir í umræðunni

Meðal þeirra hugmynda sem hafa komið upp til að auka brunavarnir eru sektargreiðslur ef ekki er staðið rétt að brunavörnum eins og tíðkast við brot á annars konar reglum.

„Eins og er þekkt í umferðinni þá borgarðu sekt ef þú ferð yfir á rauðu ljósi en þú borgar enga sekt ef þú fylgir ekki lögum um brunavarnir, sem er ekki síður hættulegt en að fara yfir á rauðu ljósi. Það er verið að velta því fyrir sér hvort það hafi svipaðan fælingarmátt.“

Umfang vandamálsins óljóst

Spurður hvort hann telji að margt íbúðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu sé með í notkun álíka brunavarnir og húsið á Bræðraborgarstíg kveðst Jón Viðar ekki geta sagt til um það.

„Við vitum það í rauninni ekki því við höfum ekki verið að skoða íbúðarhúsnæði en það kæmi mér alls ekki á óvart. Það voru brunar þarna í fyrra til dæmis á Akureyri í húsum sem voru einangruð með sagi eins og þetta hús á Bræðraborgarstíg.“

Slökkviliðið hefur í dag eingöngu heimild til að hafa eftirlit með brunavörnum í atvinnuhúsnæði. Jón Viðar segir þó í umræðunni að eftirlitsaðilum verði gefin rýmri heimild til að fylgjast með íbúðarhúsnæði.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert