„Ég hugsaði að maður lifði aðeins einu sinni og ef ég myndi fara í prufurnar þá hefði ég engu að tapa. Það versta sem gæti gerst væri að ég myndi fá neitun,“ segir Sæþór Kristínsson en hann etur nú kappi í dönskum sjónvarpsþætti, Den store bagedyst, þar sem keppt er í bakstri.
Sæþór segist, í samtali við mbl.is, hafa ákveðið að fara í prufurnar fyrir móður sína, sem hvatti hann til þess, en hún var með krabbamein á þeim tíma þegar hann sótti um og dó skömmu áður en prufurnar fóru fram.
Aðspurður segist Sæþór hafa byrjað að baka með móður sinni þegar hann var um 12 ára gamall.
„Þegar hún vildi ekki baka fyrir okkur tókum við uppskriftirnar hennar og bökuðum skúffuköku og brúntertu og annað álíka en hún var vön að baka fyrir okkur á hverjum sunnudegi,“ segir Sæþór og bætir við:
„Síðan tók við löng hvíld frá bakstrinum en þegar ég varð pabbi byrjaði ég að baka aftur fyrir dóttur mína.“
Í þættinum sem var sýndur á DR1 í gær, en var þó tekinn upp fyrr á árinu, fékk Sæþór svokallaða meistarasvuntu en þeim er útdeilt í lok hvers þáttar til þess sem sem hefur staðið sig best þann daginn.
„Mér líður mjög vel. Það var mikill heiður að fá meistarasvuntuna í gær svo ég er mjög glaður,“ segir Sæþór um þátt gærdagsins en þættirnir eru að sögn Sæþórs þeir vinsælustu í Danmörku eins og stendur.
Sæþór segist hafa fengið mikinn stuðning frá Íslendingum sem margir hverjir hafa sent honum skilaboð og óskað honum til hamingju og hvatt hann áfram. En í tíu ára sögu þáttarins er Sæþór fyrsti íslenski þátttakandinn.