Mamma og pabbi hafa alltaf ráðlagt mér gegn því að verða rithöfundur. Þau hafa varað mig við því hvað þetta er mikið hark og taki á, bæði andlega og fjárhagslega. En ég man mjög vel góðu stemninguna frá minni bernsku þegar kassar af bókum bárust inn á heimilið á haustin. Þetta voru fyrstu eintök af bókum sem mamma eða pabbi höfðu skrifað. Þá var hátíð í bæ, litlu jól á okkar heimili,“ segir Gunnar Theodór Eggertsson og á þar við foreldra sína sagnfræðingana og rithöfundana Eggert Þór Bernharðsson og Þórunni Jörlu Valdimarsdóttur.
Gunnar lét úrtölur foreldra ekki stoppa sig því í þessari viku kemur út hans áttunda bók, Nornaseiður, fyrsta bókin í nýrri seríu sem hann kallar Furðufjall.
Þórunn móðir hans sendir einnig frá sér nýja bók, Bærinn brennur- síðasta aftakan á Íslandi, bók sem varpar nýju ljósi á morðið á Natan Ketilssyni. Þórunn vinnur í bókinni úr heimildum sem Eggert maður hennar hafði viðað að sér um málið, en Eggert féll frá fyrir fimm árum.
„Ef við foreldrarnir værum skósmiðir þá væru strákarnir okkar sennilega líka að smíða skó,“ segir Þórunn og bætir við að hinn sonur hennar, Valdimar, skrifi líka ljóð og vinni auk þess með orð í starfi sínu sem forritari, hann kenni tölvum íslensku.
„Að skrifa liggur langt aftur í okkar ættir, mamma gaf út tvær bækur og pabbi skrifaði sögu flugumferðarstjóra og eldri forfeður voru líka skrifandi.“
Þegar mæðginin eru spurð að því hvort þau lesi yfir texta hvort annars segist Þórunn lesa yfir fyrir syni sína, en þeir lesi ekki yfir fyrir hana.
„Pabbi sá alltaf um að lesa yfir fyrir mömmu,“ segir Gunnar og bætir við að mamma hans kryddi alltaf textann hjá honum þegar hún lesi yfir.
„Ég teikna fugla á síðurnar við það sem ég er ánægð með hjá þeim strákunum. Ef einhver kann uppbyggilega gagnrýni þá eru það þeir sem orðið hafa fyrir alls konar gagnrýni sjálfir, og það hef ég reynt.“
Gunnar segir upphaf sinna skrifa liggja í því að hann vann á frístundaheimili í Hlíðaskóla í mörg ár.
„Þar skrifaði ég fyrstu bókina mína, Steindýrin, en ég samdi einn kafla í senn fyrir krakkana og úr varð þessi bók, enda tileinkaði ég þeim hana þegar hún kom út,“ segir Gunnar sem hlaut Íslensku barnabókaverðlaunin fyrir Steindýrin.
„Það fyrsta sem ég skrifaði og kom út eftir mig var smásaga sem fékk Gaddakylfuna 2015, verðlaun fyrir hryllingssögu, en hryllingur hefur lengi verið mitt áhugamál,“ segir Gunnar sem hefur skrifað framhaldsbók um Steindýrin, tvær bækur um Drauga-Dísu, eina bók til varnar köttum og fullorðinsbókina Sláturtíð, sem er spennusaga.
Nýja bókin hans, Nornaseiður, er margslungið ævintýri hugsað fyrir stálpaða krakka og unglinga sem vilja safaríkt ævintýri en eru kannski ekki til í að lesa doðranta.
„Mér finnst gaman að skapa heilan heim og þurfa að hugsa fyrir öllu langt fram í tímann, því þetta verður sería. Sagan gerist á óræðum tíma í miðaldaheimi og hún gerist annars vegar meðal álfa á eyju sem er hulin heiminum, og hins vegar hjá fólki sem nemur þar land og segir söguna frá báðum hliðum. Þetta er hádramtískt og það verða átök. Kaflarnir gerast til skiptist hjá Ímu álfastelpu og mennska stráknum Andreas, en þau komast bæði upp á kant við eitthvað í umhverfi sínu sem lætur þau fara út á jaðarinn. Andreas dreymir um að verða riddari en hann neyðist til að flýja land þegar drama kemur upp á milli hans og valdamikilla manna. Íma álfastelpa kemur öllu í uppnám á eyjunni sinni og á sama tíma kemur Andreas siglandi þangað. Þá mætast sögurnar og ævintýrið heldur áfram,“ segir Gunnar og bætir við að þetta sé í fyrsta skipti sem hann sé með myndskreytingar, en Fífa Finnsdóttir sá um að töfra þær fram.
„Ég þekkti Fífu ekkert áður en til þessa samstarfs kom, en það hafði áhrif á söguna að vinna með henni að bókinni. Við náðum strax rosa vel saman og hún opnaði fyrir alveg nýjar víddir. Um leið og hún byrjaði að teikna þá fór hún að bæta við smáatriðum og spyrja mig um ýmislegt sem ég hafði ekkert hugsað út í, útlit, búninga og grímur.“
Þegar Þórunn er spurð hvers vegna hún hafi skrifað nýju bókina sína um morðmál Natans Ketilssonar, segir hún að fjölskyldu hennar sé málið skylt.
„Þetta kemur allt til af því að Guðmundur Ketilsson, bróðir Natans og böðull Friðriks, var forfaðir Eggerts. Þegar við Eggert vorum ungir krakkar í sagnfræði þá vorum spurð að því hverjir væru fínustu forfeður okkar í Íslandssögunni, og þá svaraði Eggert rogginn: Ég á langflottasta forföðurinn, síðasta böðulinn á Íslandi, Guðmund Ketilsson,“ segir Þórunn og bætir við að allt hafi það verið prýðisfólk á Illugastöðum.
„Guðmundur var mikill sómamaður, hann fékk meðal annars verðlaun frá konungi fyrir æðarfuglsræktun. En það var talað illa um Guðmund í eldri heimildum og Eggert var ekki sáttur við það. Þar voru alls konar lygasögur svo hann fór að grúska og komst að því hversu lítil heimildavinna hefði farið fram á þessu máli, um síðustu aftökuna á Íslandi. Hann gekk í verkið og viðaði að sér miklum heimildum. Eggert bað mig að skrifa þessa sögu fyrir almenning, en hann hafði skrifað fræðigreinar upp úr þessum heimildum og haldið fyrirlestra þegar hann lést. Mín bók er bæði fræðibók og fyrir almenning,“ segir Þórunn og bætir við að Eggert hafi verið ellefu ára þegar hann tók niður bók úr hillu hjá ömmu sinni sem Brynjólfur frá Minna-Núpi skrifaði, en þar segir að Guðmundur hafi boðist til að verða böðull, sem hún segir ekki rétt.
„Það býðst enginn til slíkra verka, því það er fyrirlitnasta starf í heimi. Blöndal sýslumaður vildi spara fyrir þjóðina og sleppa við að flytja inn böðul, svo hann lagðist á þennan vesalings bróður Natans, hann Guðmund, og bað hann taka að sér verkið. Það er erfitt að segja nei við sýslumann og Guðmundur gaf launin sem hann fékk fyrir böðulsstarfið til fátækra. Hann kvaldist ábyggilega alla ævi fyrir að hafa hoggið þetta fólk.“
Þórunn segir að allar sögur sem gefnar hafi verið út um málið séu skrifaðar út frá slúðri.
„Ástæðan fyrir því að þeir skrifarar lásu ekki helstu heimildina, risastóra þingbók sem Blöndal sýslumaður lét skrifa niður þegar haldin voru tuttugu dómþing yfir öllum sem voru málinu viðkomandi, er sú að bókin sú er skrifuð með fljótaskrift. Enginn getur lengur lesið fljótaskrift svo Eggert borgaði Gunnari Erni Hannessyni þjóðskjalaverði fyrir að endurskrifa þetta allt skiljanlega. Þar með opnaðist allt og tækifæri kom til að afbyggja lygina. Ég segi söguna eins nálægt öllum þjóðskjölum og hægt er og síðan spegla ég hana í sagnamannaslúðri. Niðurstaðan er þessi: Reynum að hætta að slúðra. Í minni bók legg ég þetta í kjöltu lesenda og spyr: hverju vijið þið trúa? Af því það er ekki hægt að finna sannleikann, sums staðar er þoka og óljóst hvað gerðist, annars fastara land þjóðskjala undir fótum.“
Þórunn segir að þingbók Blöndals, yfirheyrslur yfir alls konar fólki um alla sýsluna, sé einstök heimild um þann tíma sem atburðir eiga sér stað, 1828.
„Blöndal tekst að draga alls konar glæpi inn í þessar skýrslur. Friðrik litli morðingi varð til dæmis ekki til úr engu, frekar en annað fólk. Hann var 17 ára strákur og Agnes var niðursetningur og var sökuð um af fólki sem þekkti hana litla að hafa þá verið brennuvargur, þjófur og dýraníðingur. Auðvitað var sálfræðivinna fyrir mig að finna og útskýra hvernig þessir krakkar urðu svona. Morðingjar verða til úr samfélagi,“ segir Jórunn og bætir við að þetta sé stórmerkur samtímaspegill. „Til dæmis birtist mikill kynjamunur í meðferð sakamanna, Friðrik fékk þrjá presta sem voru yfir honum í marga daga, á meðan Agnes fékk einn prest í eina nótt.“
Þórunn segir að saga Natans sé afar dramatísk.
„Hann var orkumikill, framtakssamur og ástríðufullur, bæði í starfi sínu sem læknir og í einkalífinu. Hann var stéttvillingur og átti þrjú börn með Vatnsenda-Rósu á meðan hún var gift. Hann var aðeins 33 ára þegar hann var myrtur. Það sem æsir okkur mest er kynlíf og hryllingur, og nóg er af því í sögu Natans. Slúðursagnirnar voru mjög kynósa og fóru langt út fyrir sannleikann í þessu máli. Natan leið líka fyrir nafnið sitt, en á þessum tíma er samfélagið gegnsósa af djöfulsótta og það var ekki til verra nafn til að setja á barn sitt en nafn sem rímar við satan, hjá þjóð sem enn var rímóð. Natan lenti í miklu einelti vegna nafns síns, settar voru saman ljótar vísur um hann þar sem satan var látið ríma við nafnið hans.“