Mun færri skjöl koma frá konum

Gríðarstórt safn skjala frá flugfélaginu Icelandair og fyrirrennurum þess, Flugfélagi …
Gríðarstórt safn skjala frá flugfélaginu Icelandair og fyrirrennurum þess, Flugfélagi Íslands og Loftleiðum, bíður frágangs og skráningar í fjargeymslu safnsins við Höfðabakka. Það er Gunnar Örn Hannesson, fagstjóri skráninga, sem þarna er að kanna stöðu mála. mbl.is/Unnur Karen

Pappírsskjölin sem berast Þjóðskjalasafni Íslands eru ekki aðeins frá opinberum stofnunum. Safnið tekur að jafnaði við um 70 einkaskjalasöfnum á ári. Þau eru þó mjög misjöfn að umfangi, allt frá einu blaði upp í 450 hillumetra. Þessi skjöl eru ýmist frá einstaklingum, fyrirtækjum eða félögum.

Umfangsmesta safnið af þessu tagi sem borist hefur er frá Icelandair og kom það í fyrra. Um er að ræða skjöl um starfsemi og rekstur flugfélagsins og fyrirrennara þess, Loftleiða og Flugfélags Íslands. Mörg matarholan er þar fyrir áhugamenn um íslenska flugsögu. En því miður er skjalasafnið ófrágengið og óskráð og var afhent þannig á 22 vörubrettum. Vinna við frágang og skráningu bíður í öruggri geymslu þar til fjármagn fæst til þess.

Einkaskjöl eru reyndar ekki aðeins varðveitt í Þjóðskjalasafni. Í héraðsskjalasöfnunum á landsbyggðinni eru mörg slík söfn og ennfremur í Borgarskjalasafni í Reykjavík og á Landsbókasafninu. Þeir sem eru að leita heimilda þurfa því víða að koma við. Bót er í máli að á netinu er samskrá um slík skjöl á vefsíðunni einkaskjalasafn.is, en hún er þó ekki tæmandi.

Vilja skjöl Eimskips

Njörður Sigurðsson, sviðsstjóri í Þjóðskjalasafni, segir að safnið hafi á sínum tíma óskað eftir að fá afhent skjöl Eimskipafélags Íslands, eins elsta fyrirtækis landsins. Skjölin voru þá varðveitt að hluta hjá Straumi fjárfestingarbanka og að hluta hjá Eimskip.

„Því miður varð ekki af afhendingu skjalanna þrátt fyrir fundi og bréfaskipti. Þjóðskjalasafn hefur enn mikinn áhuga á að fá skjöl Eimskipafélagsins til varðveislu enda um mikilvægt fyrirtæki í íslenskri sögu að ræða,“ segir Njörður.

Ein safndeildin innan Þjóðskjalasafnins er svonefnt hagsögusafn. Það er samsafn skjalasafna aflagðra verslana, fyrirtækja og einstaklinga af ólíkum toga, allt frá lokum 18. aldar og fram yfir miðbik 20. aldar. Þetta safn og hugmyndafræðin á bak við það er arfur frá gamalli tíð þegar menn vildu koma upp sérstöku íslensku skjalasafni um atvinnulífið í landinu, að danskri fyrirmynd. Þegar ráðist var í sérstakt átak við frágang og skráningu safnsins fyrir þremur árum voru undir þessum hatti þúsundir skjalabóka í stöflum á 12 vörubrettum. Þar af voru rúmlega þúsund ómerktar skjalabækur og ýmis önnur skjöl með óvissan uppruna. Eftir skráninguna eru skjalasöfnin í hagsögusafninu 336 talsins.

Þrotabúin enda í safninu

Annað safn áhugaverðra einkaskjala er skjöl þrotabúa en lögum samkvæmt skal skila þeim til Þjóðskjalasafns. Að sögn Njarðar var fyrir nokkrum árum gengið í frágang á þessum skjölum. Var farið í gegnum vel á þriðja þúsund hillumetra af pappírum sem voru á 291 vörubretti. Voru rúmlega 400 hillumetrar teknir til varðveislu úr um eitt þúsund þrotabúum. Grisjaðir, þ.e. hent, voru um 2.300 hillumetrar af bókhaldsskjölum.

Njörður segir að í þrotabúunum sé að finna mörg merkileg skjöl, t.d. frá Álafossi, Hafskipum, Arnarflugi, hljómsveitinni Utangarðsmönnum og kaupfélögum víða um landið, svo nokkuð sé nefnt.

Pólitíkina líka að finna

Nokkrir stjórnmálaflokkar hafa afhent Þjóðskjalasafni gögn sín. Elsti starfandi flokkurinn, Framsóknarflokkurinn, afhenti árið 2018 um fjóra hillumetra af skjölum sem spanna tímabilið frá 1922 til 2017. Í safninu eru m.a. fundargerðir miðstjórnar og þingflokks. Áður höfðu skjöl Alþýðuflokksins borist.

Borgarahreyfingin og Hreyfingin, sem urðu til upp úr hruninu 2008, hafa einnig afhent skjöl sín, þar á meðal fundargerðir. Sjálfstæðisflokkurinn á stórt skjalasafn sem spannar um hundrað ára tímabil (frá stofnun Íhaldsflokksins 1924) en þau eru varðveitt í höfuðstöðvum flokksins, Valhöll.

Mun færri skjöl frá konum

Talsvert hefur einnig borist til Þjóðskjalasafns af skjölum fyrrverandi stjórnmálamanna. Karlar í þeim hópi eru langtum duglegri en konur að koma skjölum sínum til varðveislu. Raunar gildir það almennt að mun færri einkaskjöl berast frá konum en körlum. Hætt er við því að það brengli söguna, sérstaklega á tímabilinu eftir að konur fóru að láta að sér kveða í opinberum málum. Meðal undantekninga frá þessu eru bréfasöfn kvenskörunga eins og Bríetar Bjarnhéðinsdóttur og Guðrúnar Lárusdóttur, en þau eru varðveitt á Landsbókasafni.

„Það er mikilvægt að safnkostur skjalasafna endurspegli samfélagið sem best á hverjum tíma og því er nauðsynlegt að fá inn meira af skjölum kvenna til varðveislu,“ segir Njörður Sigurðsson. Hann rifjar upp að árið 2015, í tilefni af 100 ára kosningarétti kvenna, hafi verið gert átak í að safna skjölum kvenna í samstarfi við héraðsskjalasöfn og Landsbókasafnið. En betur má ef duga skal.

Skjöl stjórnmálaforingja

Meðal skjalasafna stjórnmálakarla eru skjöl Geirs Hallgrímssonar, Sigurðar Bjarnasonar frá Vigur, Sverris Hermannssonar og alþýðuflokksmannanna Gylfa Þ. Gíslasonar, Jóns Sigurðssonar, Jóns Baldvins Hannibalssonar, Sighvats Björgvinssonar, Kjartans Jóhannssonar og Finnboga Rúts Valdimarssonar. Svavar Gestsson, Alþýðubandalaginu, afhenti einnig skjöl sín. Skjöl Ólafs Thors og Bjarna Benediktssonar eldri eru í Borgarskjalasafni og eru sérstakar vefsíður á netinu helgaðar þeim skjölum og æviferli Ólafs og Bjarna. Er til mikillar fyrirmyndar hvernig staðið hefur verið að birtingu þessara gagna.

Lokafrágangur hafinn

Í sumar hófu starfsmenn Þjóðskjalasafns lokafrágang á hinu stóra einkaskjalasafni Ólafs Ragnars Grímssonar, fyrrverandi forseta Íslands. Það var afhent í byrjun júní 2016. Safnið innihélt 223 kassa og þrjá fulla skjalaskápa. Skjölin eru enn lokuð almenningi. „Ég vonast því til þess að skjalaskráin geti verið tilbúin á þessu ári og í framhaldinu samningur við Ólaf um aðgang að skjölunum,“ segir Njörður Sigurðsson, sviðsstjóri í Þjóðskjalasafni. Skjalasafnið er eitt stærsta safn einstaklings í Þjóðskjalasafninu. Fyrir frágang og skráningu skjalanna greiðir Ólafur Ragnar um 3,5 milljónir króna úr eigin vasa.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert