Þarf að kunna að fela áreynsluna

Hjörleifur Sveinbjörnsson þýðandi.
Hjörleifur Sveinbjörnsson þýðandi. mbl.is/Unnur Karen

„Við fyrstu sýn kann þetta að virðast fjarlægt okkur en þegar maður fer að skoða þessar vísur betur þá standa þær margar hverjar okkur glettilega nærri. Ég hef vitað lengi af þessum vísum, ljóð er svo hátíðlegt orð, og dáðst að þeim. Þess vegna langaði mig til að miðla þeim til Íslendinga; koma þessum tímalausu og fallegu vísum yfir á okkar mál. Skylduræknin rekur mann til að miðla því sem maður getur gert.“

Þetta segir Hjörleifur Sveinbjörnsson þýðandi sem sent hefur frá sér bókina Meðal hvítra skýja – Vísur frá Tang-tímanum í Kína 618 til 907. Litið er á þann tíma sem gullöld í kínverskum bókmenntum og ljóðlist og segir Hjörleifur vísurnar ennþá eiga erindi við okkur enda tónninn sammannlegur. Sjálfur nam hann í Kína og segist í ákveðnum skilningi geta litið á sig sem „sérlegan sendiherra“ þarlandsmanna.

Liggur vel að kveðskap

Af miklu er að taka en mikið efni frá þessum tíma hefur varðveist, kvæðin hlaupa á hundruðum þúsunda. Eins og gengur er það mismerkilegt enda margir um hituna. „Það þótti frekar lélegt á þessum tíma að geta ekki hent í vísu,“ upplýsir Hjörleifur. „Þess utan liggur kínverskan vel að kveðskap; það er mikil merking fólgin í hverju atkvæði.“

Spurður hvort ekkert hafi verið átt við vísurnar á allri þessari leið segir Hjörleifur það ólíklegt enda hafi frumtextinn varðveist.

Kínversk ljóð eru mjög formföst. Í kínversku stendur eitt rittákn, að sögn Hjörleifs, undantekningarlaust fyrir eitt atkvæði. Ráðandi form er að jafnmörg tákn séu í hverri línu, gjarnan fjögur eða fimm eftir bragarhætti, og endarím algengt. Hann segir þýðendur yfir á Vesturlandamál hafa farið ýmsar leiðir að þessu, allt frá því að beygja kveðskapinn undir vestræna bragarhætti og yfir í að þýða á fríprósa eða samfellt mál.

Ekkert rétthærra en annað

„Ekkert af þessu er rétthærra en annað. Það má þýða þessar vísur á alla mögulega enda og kanta. Hver og einn þýðandi metur hvaða skyldur hann ber gagnvart skáldinu,“ segir hann og nefnir íslensku dróttkvæðin til samanburðar. „Án þess að vilja segja neitt ljótt um þau þá gæti reynst strembið að gera þeim sóma á öðrum tungumálum, þannig að lesendur sjái glitta í frumtextann.“

Fyrir sitt leyti reynir Hjörleifur að koma því til skila hvað sé frá skáldinu komið. Fer þá leið að þýða eins nákvæmlega og honum þykir fært, þó að hann geri sér um leið grein fyrir því að þýðing sé alltaf túlkun. „Ég kýs að halda í formið og hrynjandina og hafa sem mest samræmi í atkvæðafjölda innan vísu. Enda þótt flestar þessar vísur séu einfaldar getur verið flókið að snúa þeim og maður þarf stöðugt að velta fyrir sér hvort táknin þýði nákvæmlega það sama og þau gera nú. Það er alls ekki sjálfgefið. Ég er búinn að liggja mikið yfir þessum þýðingum til þess að reyna að láta þetta líta sæmilega út og sé lesvænt. Þýðandi þarf að kunna að fela áreynsluna.“

Læsir í mann klónum

Hjörleifur var við nám í Beijing frá 1976 til 1981. Hann hefur farið nokkrum sinnum til Kína síðan, síðast fyrir bráðum áratug. „Það er dálítið langt síðan ég hef komið en menningin er alltaf jafnrík í manni; hún er sterk og læsir í mann klónum og sleppir ekki. Það er auðvitað bæði til góðs og ills en þetta er alltaf með manni.“

Ekki hefur Hjörleifi þó geðjast að öllu sem fram fer þar eystra og hefur í ræðu og riti verið gagnrýninn á stjórnvöld í Kína, ekki síst eftir hina hræðilegu atburði á Torgi hins himneska friðar vorið 1989. „Það var afar sárt á að horfa og ég tók þetta mjög nærri mér. Fréttamyndirnar sem fóru eins og eldur í sinu um heimsbyggðina voru gríðarlega sterkar og maður skildi svo vel þessi ungmenni sem voru að mótmæla. Ríkisvald sem ræðst á eigin þegna er svívirðilegt en það er gömul saga og ný að alræðisyfirvöld, sem ekki sækja umboð sitt til valda í almennum kosningum, eru viðkvæmari en stjórnvöld þar sem lýðræði tíðkast.“

Nánar er rætt við Hjörleif í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.  

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert