Aðrir skólar skoða ekki kynjakvóta

Verzlunarskóli Íslands hefur tekið upp kynjakvóta.
Verzlunarskóli Íslands hefur tekið upp kynjakvóta. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kynjakvóti hefur formlega verið tekinn upp hjá Verzlunarskóla Íslands til þess að sporna við því að innritað sé hærra hlutfall en sextíu prósent af einu kyni. Guðrún Inga Sívertsen, skólastjóri Verzlunarskólans, segir að um sextíu prósent umsókna hafi verið frá stúlkum á síðastliðnum árum og um fjörutíu prósent frá strákum.

„Þegar við horfum til lokanámsmats úr grunnskóla hjá nemendum og vörpum einkunnum í stig þá eru stúlkur aðeins hærri en drengir og yrðu þær því um 70 prósent við innritun en drengir 30 prósent,“ segir Guðrún Inga í samtali við Morgunblaðið. Hún segir ákvörðunina tekna til þess að hægt sé að tryggja jafnvægi og heilbrigði í skólasamfélaginu.

Sé jafnréttissjónarmið

„Bæði stúlkur og drengir leggja hart að sér til komast inn í skólann og þetta eru allt afburðanámsmenn, þannig að það er ekki eins og við séum að segja nei við stúlkur sem eru með A í öllu og taka inn stráka sem eru með B og C,“ segir Guðrún, spurð hvort hún telji kvótann ósanngjarnan gagnvart þeim stelpum sem leggja hart að sér til þess að komast inn í skólann. „Þetta er í rauninni bara jafnréttissjónarmið.“

Spurð hvort hún telji rétt að tala um kynjakvóta þar sem aðeins er talað um tvö kyn segir Guðrún Inga að það sé ekki alveg nákvæmt því reglan kveði á um að ekki skuli innrita fleiri en 60 prósent af einu kyni.

Jafnt hlutfall sé heppilegast

„Hlutföll kynja eru allt önnur hjá okkur,“ segir Elísabet Siemsen, rektor Menntaskólans í Reykjavík. Hún segir skólann þess vegna ekki hafa þurft að velta kynjakvóta fyrir sér og bætir við að hlutföll skólans í dag séu þannig að stúlkur séu um 55 prósent og strákar 45 prósent.

„Það er auðvitað alveg ljóst að það er heppilegast að hlutfallið sé sem jafnast, bara upp á eðlilegt félagslíf og svoleiðis.“

„ Við höfum ekki haft áhyggjur af þessu hjá okkur í MH,“ segir Steinn Jóhannsson, rektor Menntaskólans við Hamrahlíð. „Við höfum horft raunverulega bara á hvern einstakling fyrir sig, án þess að horfa á kynið.“ Hann segir að ákvörðun Verzlunarskólans veki athygli og muni eflaust koma af stað einhverri umræðu í sumum framhaldsskólum. Það verði þó bara að sjá hvert tíminn leiðir hvað varðar skólann, þetta hafi ekkert verið til umræðu þar.

„Við erum með talsvert fleiri stúlkur en stráka en við höfum ekki velt alvarlega fyrir okkur kynjakvóta,“ segir Kristinn Þorsteinsson, skólameistari Fjölbrautaskólans í Garðabæ. Hann segist þó ekki ætla að útiloka möguleikann á kvóta þar sem skólinn sé á svipuðu bili og Verzlunarskólinn hvað varðar hlutföll. „Síðasta innritun var reyndar verri en það, þá var þetta þrjátíu prósent og sjötíu prósent, þannig að þetta er eitthvað sem við þurfum að hafa augun á.“ Kristinn segir það ákveðna aðferð að taka upp kynjakvóta til þess að leysa vandann, en það þurfi þó að velta fyrir sér sanngirninni fyrir þær stúlkur sem hafa lagt hart að sér en komast ekki í skólann sem þær sæ kja um sökum kynjakvóta.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert