Gult óvissustig þegar herflugvél lenti í vanda

Keflavíkurflugvöllur.
Keflavíkurflugvöllur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bresk herflugvél lenti í vanda og varð að lenda á Keflavíkurflugvelli um helgina. Upp hafði komið bilun í hreyfli vélarinnar, sem lenti síðan heilu og höldnu með níu manna áhöfn um borð.

Áður en vélin lenti var gult óvissustig sett í gang á Keflavíkurflugvelli, eins og segir í tilkynningu um málið frá lögreglunni á Suðurnesjum.

Í tilkynningunni segir einnig að ungur piltur hafi verið stöðvaður af lögreglu og reyndist hann hafa bæði kannabisefni og hníf í fórum sínum. Lögregla gerði hvort tveggja upptækt og færði til eyðingar.

Þá var hópur ökumanna samankominn á bifreiðum sínum við Selvík um helgina og höfðu þeir verið í spyrnu. Óku þeir burt þegar lögregla kom á vettvang.

Loks voru nokkrir kærðir fyrir of hraðan akstur. Sá sem hraðast ók mældist á 150 km/klst. þar sem hámarkshraðinn var 90 km/klst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert