Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu var kallað til rétt fyrir klukkan 2 í morgun í hverfi 108 vegna bílbruna. Lögregla, sem nú hefur málið til rannsóknar, telur að kveikt hafi verið í bílnum. Að slökkvistarfi loknu var bíllinn fjarlægður af vettvangi.
Þetta kemur fram í tilkynningu lögreglu til fjölmiðla.
Af myndum, sem sendar voru mbl.is, að dæma virðist bíllinn gjörónýtur að innan. Heimildir herma að bíllinn hafi staðið á gatnamótum Háagerðis og Sogavegar.
Í tilkynningu lögreglu segir einnig að maður hafi verið handtekinn í Kópavogi klukkan 04 í morgun, grunaður um hylmingu. Hann gistir nú í fangageymslu vegna rannsóknarhagsmuna.
Þar að auki voru tveir ökumenn stöðvaðir í gærkvöld grunaðir um akstur undir áhrifum, annar klukkan 21:30 í Grafarvogi en hinn skömmu síðar á Reykjanesbraut.