Sektin nemur fimm prósentum af ársveltu Dr. Football

Hjörvar Hafliðason, eigandi hlaðvarpsins Dr. Football.
Hjörvar Hafliðason, eigandi hlaðvarpsins Dr. Football. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hlaðvarpið Dr. Football, sem haldið er úti af Doc Media slf., undir stjórn Hjörvars Hafliðasonar, er nú orðið skráður fjölmiðill hjá fjölmiðlanefnd. Kemur það til af úrskurði nefndarinnar á föstudag þar sem Dr. Football var gert að greiða hálfa milljón króna í stjórnvaldssekt vegna brota á reglum um skráningarskyldu fjölmiðla og bann við viðskiptaboðum fyrir áfengi, þar sem Hjörvar hafði auglýst vörumerkið Ólafsson Gin í þáttum sínum og ekki sinnt því að skrá hlaðvarpið sem fjölmiðil.

Í svörum Hjörvars við frummati fjölmiðlanefndar taldi hann skilning nefndarinnar á hugtakinu „fjölmiðill“ úr hófi víðtækan, en með því væru nær öll hlaðvörp og miðlun einstaklinga og lögaðila á samfélagsmiðlun sett undir sama hatt. Í skilningi laganna er fjölmiðill hvers konar miðill er miðlar efni til almennings reglulega og lýtur ritstjórn. Nefndi hann sem dæmi að miðlun Lindu Ben. á uppskriftum og lífsstílstengdu efni á Instagram, og miðlun fólks á efni á miðlinum OnlyFans, væri ekki skráð sem fjölmiðlun hjá fjölmiðlanefnd, eins og krafist sé af honum.

Hjörvar segist ekki vilja tjá sig um niðurstöðu nefndarinnar á opinberum vettvangi, heldur muni hann einfaldlega greiða sektina og halda svo áfram með þættina.

Sektir sem þessar taka ekki mið af veltu þess fjölmiðils sem þær hlýtur. Heimildir Morgunblaðsins herma að sektin, sem er að upphæð 500.000 krónur, samsvari um fimm prósentum af ársveltu hlaðvarpsins. Þannig má ætla að hún leggist hlutfallslega þyngra á Dr. Football en hún kæmi til með að gera á stærri fjölmiðla, sem lúta sömu reglum.

Tekið er fram í úrskurði nefndarinnar að við ákvörðun sektarfjárhæðar hafi verið tekið mið af tekjum af broti, umfangi og alvarleika þess.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert