„Mér sýnist margt benda til þess að eldgosið sé alveg á lokametrum. Enn mælist þó minniháttar útstreymi gass úr gígnum og hrauninu, sem segir okkur að enn leynist þarna líf, þótt lítið sé,“ segir Þorvaldur Þórðarson, eldfjallafræðingur við HÍ, í samtali við Morgunblaðið.
Eldgosinu á Reykjanesskaga, sem hófst 19. mars síðastliðinn, verður ekki aflýst fyrr en eftir að minnsta kosti þriggja mánaða stopp. Nú eru liðnar fimm vikur frá því að hraun rann síðast við Fagradalsfjall. Því verður beðið með yfirlýsingar í að minnsta kosti tæpa tvo mánuði enn.
Að þrír mánuðir líði frá því að eldsumbrotum lýkur uns formleg yfirlýsing um goslok er gefin út er í samræmi við gildandi viðmið. Nefna má að í eldgosinu í Eyjafjallajökli árið 2010 varð umbrota þar síðast vart dagana 6. og 7. júní. Hins vegar var liðið langt á október það ár þegar jarðvísindamenn settu lokapunkt í söguna.
„Þegar kraftur í gosinu við Grindavík var mestur hefur hraunstreymið verið á bilinu 5-10 rúmmetrar á sekúndu. Til að gosrás haldist opin þarf straumur glóandi hrauns að vera þrír rúmmetrar á hverri sekúndu og framleiðslan við Fagradalsfjall er núna komin langt þar undir. Útstreymi gosefna nú er sáralítið,“ segir Þorvaldur.
Jarðhræringar við Keili sem mældust á dögunum gefi vísbendingar um að enn sé kvika í jörðu á Reykjanesskaga, en hún sé þó í lágmarki. „Að líkja eldgosinu við sjúkling sem er enn með lífsmarki en er í öndunarvél er samlíking sem gæti átt við,“ segir Þorvaldur.
„Flestir bæjarbúar væru ánægðir ef þessu væri lokið,“ sagði Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík, í samtali við mbl.is í gær. Ferðaþjónustan í bænum hafi notið góðs af gosinu en mengun og hættan sem fylgdi hraunflæði hafi verið til baga.