Maðurinn sem var handtekinn af sérsveit lögreglu í lok júní eftir að hafa ógnað fólki við kaffistofu Samhjálpar með byssu var dæmdur í þriggja ára fangelsi í síðustu viku. Þetta staðfestir Friðrik Smári Björgvinsson aðstoðarsaksóknari í samtali við mbl.is.
Staðfestir hann að maðurinn hafi verið sakfelldur fyrir að hafa hótað almenningi, lögreglumönnum og tveimur karlmönnum á kaffistofu Samhjálpar með óhlaðinni skammbyssu.
Þegar maðurinn var handtekinn í sumar var byssan sem hann bar hlaðin. Fyrir dómi hélt hann því fram að hann hafi hlaðið byssuna skömmu fyrir handtökuna og tókst ákæruvaldinu ekki að sanna að byssan hefði verið hlaðin þegar hann ógnaði fólki með henni.
Neitaði hann að hafa beint byssunni að lögreglumönnum og almennum borgurum. Hann hins vegar játaði að hafa beint henni að einum mannanna á kaffistofu Samhjálpar, sem honum var gefin sök fyrir, en hafnaði að hafa beint henni að hinum manninum sem var Þráinn Farestveit, framkvæmdastjóri Verndar áfangaheimilis fyrir fanga.
Þráinn ræddi atvikið við blaðamann mbl.is í sumar.
Dómurinn komst einnig að þeirri niðurstöðu að svipta manninn ökuréttindum ævilangt vegna brota á umferðalögum og fíkniefnalögum fyrir að hafa keyrt undir áhrifum fíkniefna. Hann játaði brotin.
Maðurinn hefur sex sinnum hlotið dóm fyrir ýmis brot gegn umferðarlögum, fíkniefnalögum, tollalögum og almennum hegningarlögum.
Í apríl var hann einnig handtekinn fyrir hnífsárás á veitingastaðnum Sushi Social en hann var ekki ákærður fyrir þá árás.