Skemmtistaðaeigendur líta byrlanir alvarlegum augum. Þeir ræða nú við starfsfólk sitt og brýna fyrir því að vera vakandi fyrir einkennum byrlana.
Í síðustu viku ræddi Morgunblaðið við Birgittu Líf Björnsdóttur, eiganda Bankastrætis Club, og lýsti hún því yfir að byrlunum hefði fjölgað verulega á skemmtistöðum í miðbæ Reykjavíkur síðastliðnar helgar. Hún líkti ástandinu við einhvers konar faraldur.
Sindri Snær Jensson, einn eigandi skemmtistaðarins Auto, segir í samtali við Morgunblaðið að skemmtistaðurinn taki harða afstöðu gegn byrlunum og hefur beðið dyraverði sína að spyrja stelpur sem fara af staðnum hvort þær þekki viðkomandi sem þær fara með.
„Blessunarlega höfum við ekki lent í þessu ennþá eða ekki svo við vitum til, það hefur ekkert verið tilkynnt og vonandi kemur ekki til þess. Við tökum harða afstöðu gegn þessu. Það er hræðilegt að þetta sé að koma upp af því að þetta er svo einbeittur brotavilji og mikill aumingjaháttur,“ segir Sindri Snær.
Sindri segir staðinn vera með sextán myndavélar sem nái um allt húsnæðið og ættu þeir því að geta séð vel hver stæði að verki ef byrlunarmál kæmi upp. Þá bætir hann við að eigendurnir hafi fundað með öryggisvörðum og starfsfólki um þessi mál og vilji alfarið losna við þetta úr allri menningunni.
„Við segjum dyravörðunum að vera vakandi og ef eitthvað svona kemur upp þá þarf að hjálpa því fólki. Þegar stelpur eru að fara út af staðnum eru þeir með fyrirmæli um að spyrja þær hvort þær þekki viðkomandi sem þær eru að fara með og athuga ástandið á fólkinu sem er að fara af staðnum.“
Sindri hefur rætt við aðra skemmtistaðaeigendur og segir hann þá slegna yfir þessu. „Það eru allir slegnir yfir þessu og finnst þetta hræðilegt og vilja úthýsa þessu alfarið.“
Geoffrey Þ. Huntingdon-Williams, einn eigenda Priksins, segir í samtali við Morgunblaðið að áfram verði unnið með fyrirbyggjandi starfsemi á Prikinu.
„Við á Prikinu höfum ekki orðið vör við byrlunarmál undanfarin misseri en munum sífellt vera með fyrirbyggjandi starfsemi til þess að bregðast rétt við ef þannig atvik kemur upp því að svona atvik spyrja ekki um staði, þetta getur gerst á hvaða stað sem er og í ótrúlegustu aðstæðum.“
Geoffrey segir að rifjuð hafi verið upp með starfsmönnum Priksins einkenni byrlana, minnt á að hunsa ekki fólk vegna þess að það gæti einungis verið ofurölvi og vera með inngrip þegar á við.
Þá hefur Geoffrey, líkt og Sindri Snær, rætt við aðra skemmtistaðaeigendur og segir hann alla á sömu braut um að vilja útrýma byrlurum.
Í viðtali Morgunblaðsins við Birgittu Líf varpaði hún þeirri hugmynd fram að skemmtistaðir ættu að byrja að leita á aðilum áður en þeir koma inn á skemmtistaði.
Geoffrey er tilbúinn til að skoða hugmynd Birgittu. „Mér finnst það prýðis forvörn sem ég myndi alveg vilja skoða sjálfur, sérstaklega þegar meira hefur borið á vopnaburði.“
Sindri Snær segist hafa rætt þessa hugmynd við dyraverði sína en þeir hafi tjáð sér að ekki sé lagaheimild fyrir því að leita á fólki.