Miðað við árstíma og aðstæður í kórónufaraldrinum hefur verið drjúgt að gera í hvalaskoðun hjá Norðursiglingu og Eldingu síðustu vikur. Fyrirtækin eru með skoðunarferðir í Eyjafirði, Skjálfanda og Faxaflóa og hafa hnúfubakar og fleiri tegundir hvala sýnt listir sínar.
Hörður Sigurbjarnarson hjá Norðursiglingu segir að landkynning eins og fékkst með Eurovision-myndinni, sem tekin var upp á Húsavík, og útsendingu þaðan á Óskarsverðlaunahátíðinni skili sér eflaust í auknum áhuga á hvalaskoðun fyrir norðan.
Í vikunni er haldin stór jarðhitaráðstefna í Reykjavík og segir Rannveig Grétarsdóttir hjá Eldingu að bókunum í hvalaskoðun fjölgi samhliða slíkum viðburði. 10