Eigendur skemmtistaða geta gert það að skilyrði að gestur heimili líkamsleit áður en hann fer inn á skemmtistað, en að öðrum kosti verði honum vísað á dyr. Þetta kemur fram í svari embættis ríkislögreglustjóra við fyrirspurn mbl.is.
Líkamsleit væri óheimil nema með samþykki hvers og eins gest þar sem einkaaðilar hafa ekki sömu heimildir og opinberir aðilar til að framkvæma leit að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.
Borið hefur á því að skemmtistaðir erlendis hafi hafið líkamsleitir í ljósi þess að færst hefur í aukana að gestum sé byrluð ólyfjan en Birgitta Líf Björnsdóttir, eigandi Bankastræti Club, lýsti því í samtali við mbl.is fyrir skemmstu að útlit væri fyrir að byrlanafaraldur hafi gripið um sig í miðbæ Reykjavíkur.
Einstaklingar verða sjálfir að gefa leyfi fyrir líkamsleit ef hún er framkvæmd af hálfu skemmtistaða, að því er leiðir af 71. gr. stjórnarskrárinnar um friðhelgi einkalífs, en í 2. mgr. ákvæðisins segir að ekki megi gera líkamsrannsókn eða leit á manni [...] nema samkvæmt dómsúrskurði eða sérstakri lagaheimild. Þó segir í 3. mgr. að þrátt fyrir ákvæði 1. mgr., megi með sérstakri lagaheimild takmarka á annan hátt friðhelgi einkalífs heimilis eða fjölskyldu ef brýna nauðsyn ber til vegna réttinda annarra.
Sem fyrr segir geta einkaaðilar einfaldlega gert það að skilyrði að gestir samþykki líkamsleit, vilji þeir komast inn á viðkomandi skemmtistað. Þó mætti ekki leita á einstaklingi án hans samþykkis.