Umræða um húsnæðismál í Reykjavík hefur verið mikil undanfarin ár, enda vel þekkt að erfitt getur verið að finna íbúðarhúsnæði í borginni og fasteignaverð hefur hækkað ört. Svo rammt hefur að þessu kveðið að sumir hafa talað um húsnæðiskreppu í því samhengi og kennt um lóðaskorti, sem rekja megi til stefnu meirihlutans í borginni eða sinnuleysis. Meirihlutinn segir hins vegar að mikil íbúðauppbygging eigi sér stað, en nýjar byggðir þurfi að bíða borgarlínunnar til 2034.
Um þetta var nýlega fjallað í tímaritinu Vísbendingu, þar sem sagt var að ekki væri teljandi lóðaskortur í borginni, þó fallist væri á að mun meira þyrfti að byggja til þess að anna eftirspurn. Tvær ástæður voru nefndar fyrir því að uppbyggingin væri ekki meiri en raun bæri vitni. Annars vegar væru bankar tregir til að lána til íbúðabygginga, en hins vegar væru verktakar tregir til að byggja, eins og sæist af því að ekki væri nema hluti útgefinna byggingarleyfa nýttur.
Varla verður þó byggt í borgarlandinu nema lóðir fyrir íbúðarhúsnæði standi til boða. Auðvelt er að sjá á vef Reykjavíkurborgar, að þar eru engar lóðir í boði. Eins er fullyrðingin um að bankar vilji ekki lána, sem virðist ættuð frá borgarstjóra, fremur hæpin. Stóru viðskiptabankarnir þrír hafa allir staðfest að þeir hafi ekki hætt að lána til uppbyggingar. Á hinn bóginn dregur eðli máls samkvæmt úr útlánum þegar umsvif dragast saman.
Aftur á móti er rétt að huga nánar að nýtingu útgefinna leyfa fyrir nýjum íbúðum, sem byggðar eru á gögnum byggingarfulltrúans í Reykjavík. Á takmarkaðri nýtingu þeirra eru vafalaust fjölbreytilegar skýringar, en sú helsta er að líkindum eðlileg framvinda byggingaframkvæmda, því flestir verktakar byggja í áföngum. Þrátt fyrir að leyfi fáist fyrir 200 íbúðum er fyrst ráðist í byggingu 50 íbúða áður en lengra er haldið.