Lögreglan á Vesturlandi kveðst ekki hafa til rannsóknar hjá sér brot á verkferlum verktaka sem unnu við sprengingar síðastliðinn fimmtudag vegna vegaframkvæmda. Aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Vesturlandi segir fjölmiðlaumfjöllun á málinu byggja á misskilningi.
Greint var frá því á sunnudag að lögreglan á Vesturlandi rannsakaði verkferla verktaka sem stóðu að vegaframkvæmdum í Skorradal í Borgarfirði. Talið var að brot hefði verið framið á verklagi við framkvæmd sprenginga síðastliðinn fimmtudag.
Samkvæmt upplýsingum fjölmiðla hafði lögreglu og nágrönnum ekki verið gert viðvart um sprengingarnar, veginum hafði ekki verið lokað og viðvaranir ekki settar upp.
„Það er engin rannsókn í gangi. Þetta er einhver ægilegur misskilningur,“ segir Ásmundur Kristinn Ásmundsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Vesturlandi.
Að hans sögn var lögreglunni vissulega gert viðvart um ágalla á verkferlum við vegaframkvæmdirnar en að það hafi ekki varðað sprengingar síðastliðinn fimmtudag, heldur einungis að merkingum við framkvæmdirnar hefði verið ábótavant.
Hefur verktakinn sem stendur að framkvæmdunum bætt úr því.