Sýnir hvað allt er viðkvæmt

Sólveig Dóra Hansdóttir, fatahönnuður, ræddi um víðtæk áhrif kórónuveirufaraldurs á meistaranám hennar og annarra nemenda í einum virtasta hönnunarskóla heims, Central Saint Martin í London, þaðan sem hún útskrifaðist í vor, í Dag­mál­um, frétta- og menn­ing­ar­lífsþætti Morg­un­blaðsins.

Hún flaug til Íslands frá London í upphafi faraldursins, í mars 2020, með það að markmiði að dvelja hér á landi í þrjár vikur. Vikurnar urðu þó mun fleiri en Sólveig hefur enn ekki snúið aftur til London síðan og vann útskriftarlínu sína, sem fékk aðalverðlaun útskriftarnema í skólanum og hefur hlotið mikla athygli um heim allan, alfarið frá Íslandi.

Einstakur bekkur

„Þetta hafði mjög mikil áhrif. Allir voru að gera sitt næstum því frá herberginu sínu,“ sagði Sólveig.

„Það er líka pínu áhugavert að vera hluti af þessum bekk sem þurfti að gera þetta svona. Þetta verður alltaf sá bekkur sem tók þetta allt öðruvísi en allir aðrir bekkir sem hafa útskrifast úr þessu námi,“ segir Sólveig Dóra en hún segir að nemendur hafi þurft að vinna mun meira sjálfstætt. 

„Fólk var bara að nýta það sem það átti. Fólk var að nýta vini sína til að búa til myndbönd. Þetta varð miklu meira náið og mjög fallegt ferli,“ segir Sólveig sem telur ástandið hafa orðið til þess að minna var um óheilbrigðan móral og samkeppni á milli nemenda sem þekkist í náminu – en venjulega vinna nemendurnir að útskriftarlínum sínum í einni stofu í umhverfi sem getur skapað mikið álag. 

Leitaði í þau úrræði sem hún hafði

Segir hún að ekki leiki vafi á því að faraldurinn hafi hafði mikil áhrif á útskriftarlínur allra nemenda, þar á meðal hennar.

„Þetta ýtti okkur í að vera ennþá sjálfstæðari,“ segir Sólveig. „Og leita í þau úrræði sem við höfðum. Ég þurfti bara að leita að efnum hér á Íslandi og leita í fólkið sem ég þekki á Íslandi og að fólki til að aðstoða mig. Fyrirsætur sem ég þekki hér og að fólki til að koma í mátun fyrir mig,“ segir hún og staðfestir að venjulega skaffi skólinn þetta allt og skipuleggi tískusýningu fyrir nemendur. 

Segir Sólveig Dóra að þess vegna hafi nemendur einnig haft mun meiri stjórn á lokaútkomunni sem hafi kennt þeim gríðarlega mikið. Segir hún að aðstæðurnar hafi sýnt þeim hvað allt sé í raun viðkvæmt og brothætt en útskriftarlína hennar, sem bar yfirskriftina Þrjár kenningar um illsku, var einmitt innblásin af því hvað raunveruleikinn getur verið óútreiknanlegur og lætur illa að stjórn.

Sjáðu þátt­inn í heild sinni hér.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert