Telur niðurstöðu lögreglu ranga

Baldur Eiðsson, hrossaræktandi í Landeyjum.
Baldur Eiðsson, hrossaræktandi í Landeyjum. Ljósmynd/Aðsend

Baldur Eiðsson, eigandi hrossanna sem fundust dauð í túni hans í síðustu viku, segir úrskurð lögreglu og dýralæknis um náttúrulegan dauðdaga dýranna rangan. Telur hann að illa hafi verið staðið að rannsókn málsins og krefst hann skýringar á því hvers vegna blætt hafi úr bringu hestsins ef ekki sé um skotsár að ræða.

Í síðustu viku gekk Baldur, húsasmíðameistari og hrossaræktandi í Lindartúni í Landeyjum, fram að tveimur hestum þar sem þeir lágu dauðir í beitarhaga. Blóð hafði runnið úr nösum hestanna og var annar þeirra, þriggja vetra stóðhestur, með blóð í feldinum á brjóstkassanum. Var þá talið líklegt að gæsaskytta sem sást hafði til á veiðum í nágrenninu með riffil, bæri sök á verknaðinum. 

Í gær fór dýralæknir ásamt lögreglunni á Suðurlandi á vettvang og skoðaði hræ dýranna útvortis. Í samtali við blaðamann sagði Oddur Árnason, aðstoðaryfirlögregluþjónn á Suðurlandi, að eftir nákvæma skoðun hefði komið í ljós að ekki væri líklegt að um skotsár væri að ræða heldur náttúrulega dánarorsök. Hefur lögreglan tekið ákvörðun um að aðhafast ekki meira í því máli og er rannsókn þar með lokið.

Telur rannsóknina ófullnægjandi

Rétt um einn kílómetri var á milli hræjanna þar sem þau fundust á túninu. Var annað þeirra af folaldi og hitt af þriggja vetra stóðhesti sem átti eftir að temja. Baldur segist geta tekið undir það að dauði folaldsins hafi verið vafamál en dauða graðhestsins sé ekki hægt að útskýra sem náttúrulega dánarorsök enda eigi ekki að blæða úr bringu á sjálfdauðum hesti.

„Ég tel að þetta sé röng niðurstaða. Á hestinum er greinilegt að það hefur blætt úr bringunni. Ef maður setur puttana á það svæði er ekkert nema blóð í feldinum. Hvaða náttúrulega dánarorsök er það að það blæðir úr bringunni á hrossinu?“spyr Baldur og bætir við að þetta hafi ekki verið nokkurt vafamál í hugum þeirra sem hefðu komið að og séð hræin. Voru þeir allnokkrir.

Mættu ekki undirbúin

Baldur, sem var viðstaddur þegar lögregla og dýralæknir skoðuðu hræin, telur rannsóknina ekki hafa verið nákvæma en til að finna kúlugat, sem getur ekki hafa verið mikið stærra en endi á penna, sé nauðsynlegt að raka feld dýrsins af. Það var ekki gert.

Bendir hann einnig á að dýralæknir og lögregla hafi ekki mætt undirbúin á vettvang. Sem dæmi hafi hann sjálfur þurft að skaffa einnota hanska fyrir skoðunina. 

„Þetta var ekki nákvæm rannsókn og ég tel að hún sé röng. Dýralæknir verður þá líka að svara þeirri spurningu: Út af hverju blæðir úr dýrinu?“ 

Segir hann reynslu lögreglunnar af rannsóknum á hestum takmarkaða og að dýralæknirinn hafi mögulega ekki verið spurður réttu spurninganna. 

Ekki fengið frekari svör

Niðurstaða lögreglunnar lá ekki fyrir í gær og fékk Baldur því ekki tækifæri til að krefjast frekari svara þá.

„Ég hef ekkert heyrt í þeim. Ég las þetta bara á mbl áðan. Ef að þetta er niðurstaða lögreglu verður hún bara að eiga það við sjálfa sig. Ég hef nóg annað að hugsa heldur en þetta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert