Tveir bættust í hóp þeirra sjö starfsmanna lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu sem komnir eru í einangrun eftir að Covid-19-smit greindust hjá embættinu í gær. Þetta staðfestir Þóra Jónasdóttir, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is.
Allir starfsmennirnir eru fullbólusettir og enginn þeirra alvarlega veikur, segir Þóra innt eftir því. „Við vonum bara að þeir nái bata og að þetta hafi ekki áhrif á fjölskyldur þeirra.“
Tíu starfsmenn til viðbótar eru í sóttkví vegna smitanna sjö sem komu upp um helgina.
Starfsmennirnir tveir sem greindust jákvæðir í gær voru í sóttkví við greiningu og því hefur þeim sem eru í sóttkví ekki fjölgað síðan um helgina, að sögn Þóru.
„Svo er eitthvað af fólki að klára sóttkví og koma aftur til starfa í dag.“
Til að fyllsta öryggis sé gætt er ráðgert að tvö hundruð starfsmenn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu fari í skimun og stendur sú vinna yfir, að því er greint var frá í tilkynningu lögreglunnar.
Þrátt fyrir ofangreint gengur starfsemi embættisins fyrir sig með eðlilegum hætti og hefur ekki áhrif á þau útköll sem lögreglan þarf að sinna.