Vitundarvakningu gegn heimilisofbeldi að ljúka

Að meðaltali heimsóttu 235 manns á dag sérstaka vefgátt 112 …
Að meðaltali heimsóttu 235 manns á dag sérstaka vefgátt 112 vegna ofbeldis. mbl.is/Eggert

Nú er eitt ár liðið frá því að ríkislögreglustjóri opnaði sérstaka vefgátt 112 vegna ofbeldis og setti samhliða því af stað vitundarvakningu gegn heimilisofbeldi. Yfir 200 manns heimsækja vefgáttina daglega en hún verður áfram starfrækt.

„Algengt er að þau sem heimsækja vefinn séu að leita upplýsinga um andlegt ofbeldi og er eitt mest lesna efnið á síðunni það sem sniðið hefur verið sérstaklega að ungu fólki. Af þeim úrræðum sem kynnt eru í vefgáttinni er algengast að fólk kynni sér Heimilisfrið, meðferðarstöð fyrir þau sem beita ofbeldi í nánum samböndum,“ segir í tilkynningu frá embætti ríkislögreglustjóra. 

Sérstakt úrræði fyrir gerendur

Á vefsíðunni var kynnt nýtt úrræði fyrir þá sem hafa áhyggjur af sinni kynferðislegu hegðun eða hafa beitt kynferðisofbeldi en úrræðið heitir Taktu skrefið.

Sérlega margar tilkynningar um heimilisofbeldi bárust lögreglu síðasta ár eða 1.049 mál. Það er um 16% fleiri tilkynningar en bárust að meðaltali síðustu þrjú árin á undan. Af því sem af er þessu ári hefur fjöldi tilkynninga ekki færst í fyrra horf en 795 mál tengd heimilisofbeldi voru tilkynnt fyrstu níu mánuði ársins. 

827 þolendur heimilisofbeldis komu í fyrsta viðtal í Bjarkarhlíð, miðstöð fyrir þolendur ofbeldis, á síðasta ári en það var 47% fjölgun miðað við árið áður. Það sem af er þessu ári hafa 810 komið í viðtal. 

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Mikil vakning hefur átt sér stað varðandi ofbeldismál og þá ekki síst ofbeldi í nánum samböndum eða þar sem börn eiga um sárt að binda. Það er skylda okkar sem erum kjörin á þing að berjast fyrir betra samfélagi og það á líka við um að líta ekki undan ofbeldi eða áreitni og leggja okkar af mörkum til að bæta umhverfi þolenda.

Unnið hefur verið að umbótum á löggjöf, bættu verklagi við meðferð ofbeldismála innan réttarvörslukerfisins, aukinni vernd fyrir þolendur, einfaldari meðferð nálgunarbanns og auknum skilningi á þörfum þolenda brotanna. Margt hefur vissulega áunnist en þessi málaflokkur mun áfram njóta okkar fyllsta áhuga og athygli,“ er haft eftir Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra í tilkynningunni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert