600 starfsmenn Landspítala óbólusettir

Borgarspítalinn, húsnæði Landspítala í Fossvogi.
Borgarspítalinn, húsnæði Landspítala í Fossvogi. mbl.is/Árni Sæberg

Rúmlega 600 starfsmenn Landspítala hafa enn ekki verið bólusettir „af ýmsum ástæðum.“ Starfsmenn Landspítala eru um 6.000 talsins og er hlutfall óbólusetts starfsfólks því um 10%. 

Ábyrgð Landspítala gagnvart sínum skjólstæðingum og starfsmönnum er mikil. Okkur er skylt að tryggja öryggi sjúklinga og starfsmanna eins og frekast er unnt,“ skrifar Már Kristjánsson, formaður farsóttanefndar Landspítala, á vef Landspítala.

Eins og áður hefur komið fram vernda bólusetningar gegn Covid-19 fólk gegn alvarlegum veikindum og minnka líkur á því að fólk smitist af kórónuveirunni sem veldur Covid-19 og smiti aðra. 

Grímunotkun hefur reynst vel á spítalanum og hafa engin smit orðið frá starfsmönnum til sjúklinga þegar grímur hafa verið notaðar og ekki heldur á milli starfsmanna þegar reglur um grímunotkun og fjarlægðarmörk hafa verið virtar.

„Þátttaka í bólusetningum starfsmanna hefur verið nokkuð góð - um 90% eru fullbólusettir og þátttaka í endurbólusetningum var um 60%. Ennþá eru yfir 600 starfsmenn óbólusettir, af ýmsum ástæðum,“ skrifar Már.

Margir eldri einstaklingar orðið mjög veikir

Hann segir sjúklinga almennt vel bólusetta, sérstaklega hvað varðar þá sem eldri eru.

„Hins vegar vitum við að eldri og ónæmisbældir sjúklingar svara bóluefnunum misvel, því sjáum við allnokkuð af smitum í þessum hópi, margir í þeim orðið mjög veikir og nokkrir látist nú í haust.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert