Rannsóknin á skotárásarmáli á lokametrum

Skot úr byssu mannsins fóru meðal annars á nærliggjandi hús.
Skot úr byssu mannsins fóru meðal annars á nærliggjandi hús. Ljósmynd/Gunnar Gunnarsson

Rannsókn héraðssaksóknara á skotárásarmáli á Egilsstöðum í ágúst er á lokametrum og verður það í framhaldinu sent til ákærusviðs embættisins þar sem ákvörðun verður tekin um hvort ákæra eigi í málinu eða fella það niður. Þetta staðfestir Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari við mbl.is.

Lögreglan var kölluð til vegna mannsins þar sem hann var vopnaður í Dalseli á Egilsstöðum í ágúst. Fram hefur komið í tilkynningu lögreglunnar að maðurinn hafi verið inni í íbúðarhúsi og heyrðust skothvellir innan úr húsinu þar sem hann skaut að lögreglu.Kom hann svo um klukkustund síðar úr húsinu vopnaður og hélt áfram að skjóta að lögreglu og skaut lögreglan hann þá.

Maðurinn var fluttur suður á sjúkrahús vegna áverka af skotinu, en um mánuði síðar var hann kominn af gjörgæslu. Hefur hann verið í gæsluvarðhaldi frá því að hann var handtekinn í ágúst.

Kolbrún sagði fyrir um hálfum mánuði við mbl.is að sú staðreynd að maðurinn væri áfram í varðhaldi gæfi ágætis vísbendingu um að gefin verði út ákæra í kjölfar rannsóknarinnar.

Almennur rammi til að gefa út ákæru eigi að halda fólki í varðhaldi eru tólf vikur. Sá tími rennur út eftir rúmlega hálfan mánuð. Kolbrún hefur áður sagt að hún geri ráð fyrir að tímaramminn standist.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert