Ragnhildur Arnljótsdóttir, fastafulltrúi Íslands hjá Evrópuráðinu í Strassborg, hefur undirritað Evrópusamning um sjónvarpsútsendingar yfir landamæri fyrir hönd íslenskra stjórnvalda.
Markmið samnings Evrópuráðsins er að auðvelda útsendingar og endurvarp sjónvarpsefnis yfir landamæri samningsríkjanna. Samningurinn er á fyrsti sinni tegundar sem gerður var til að koma á sameiginlegum meginreglum um dreifingu sjónvarpsefnis yfir landamæri, að því er segir í tilkynningu.
Þýðing samningsins markast meðal annars af útgöngu Breta úr Evrópusambandinu. Bretar hafa tilkynnt að þeir muni nýta sér þennan sjónvarpssáttmála Evrópuráðsins og eru þegar aðilar að honum.
Noregur, Liechtenstein og Sviss eru jafnframt þegar aðilar að samningnum og talið er mikilvægt að Ísland verði það einnig. Er það m.a. mat Fjölmiðlanefndar að undirritun og fullgilding samningsins muni auðvelda öll samskipti á þessu sviði við bresk yfirvöld eftir útgöngu Breta úr ESB.
Ísland mun taka við formennsku í Evrópuráðinu í nóvember á næsta ári, í annað sinn frá upphafi en 47 Evrópuríki eiga aðild að ráðinu. Undirbúningur fyrir formennskuna gengur vel, samkvæmt tilkynningunni, og reikna má með viðburðum bæði hér á landi og erlendis á formennskutímabilinu og í aðdraganda þess.