Sárafáir hafnað bólusetningum alfarið

„Við erum stærsti kvennavinnustaður landsins,“ bendir Vigdís á.
„Við erum stærsti kvennavinnustaður landsins,“ bendir Vigdís á. Ljósmynd/Landspítali

Þau sem starfa hjá Landspítala og höfðu ekki fengið bólusetningu gegn Covid-19 í byrjun sumars, þegar tölfræðilegra gagna var aflað, voru helst ófrískar konur og fólk sem hafði áður smitast af kórónuveirunni. Sárafáir starfsmenn Landspítala hafa hafnað bólusetningu alfarið, einungis um 20 til 30 manns.

Þetta segir Vigdís Hallgrímsdóttir, forstöðumaður krabbameinskjarna Landspítala, sem vann með farsóttarnefnd spítalans að því að skipuleggja bólusetningar starfsmanna. Þau miða við stöðuna eins og hún var í byrjun sumars. Þá var hlutfall bólusettra starfsmanna 93%. 6.494 störfuðu þá hjá spítalanum og höfðu 6.014 þegið bólusetningu. Gera má ráð fyrir því að hlutfall bólusettra starfsmanna sé orðið enn hærra í dag þar sem þeim sem hafa áður smitast af kórónuveirunni hefur nú verið boðin bólusetning.

Fyrr í dag var greint frá því að rúmlega 600 starfsmenn Landspítala hefðu ekki fengið bólusetningu gegn Covid-19. Sú tala er ekki rétt heldur er hún nær 480 og er þá, eins og áður segir, miðað við byrjun sumars.

„Langstærsti hluti þessa 480 manna hóps sem hafði ekki þegið bólusetningu á þessum tíma eru ófrískar konur. Við erum stærsti kvennavinnustaður landsins,“ segir Vigdís.

Ófrísku konurnar sem um ræðir ákváðu margar að fresta sinni bólusetningu og þiggja hana frekar eftir t.d. 12 vikna meðgöngu.

Hafa ekki rakið hvaða starfsmenn séu óbólusettir

Um 200 starfsmenn Landspítala höfðu smitast af kórónuveirunni þegar bólusetning fór fram í byrjun sumars og eru þeir starfsmenn því stór hluti af hópnum sem þá var óbólusettur.

Vigdís segir að spítalinn viti ekki nákvæmlega hvaða starfsmenn séu bólusettir og hverjir ekki. Þá er ekki vitað á hvaða deildum hin óbólusettu starfa. „Við höfum ekki rakið það.“

Vigdís segir það af og frá að margir starfsmenn Landspítala séu á móti bólusetningum.  „Það eru sárafáir sem hafa hafnað bólusetningu alfarið, ekki nema 20 til 30 manns sem sögðust ekki ætla að þiggja bólusetningu.“

Heimturnar ekki alveg jafn góðar í þriðja skammti

Aðspurð segir Vigdís að spítalinn hafi ekki upplýsingar um það um hvaða einstaklinga ræðir og að ekki hafi verið tekin ákvörðun um að fara í aðgerðir gagnvart hópnum. „Þetta er val hvers og eins.“

Nú er bólusetning með þriðja skammti af bóluefni gegn Covid-19 hafin. Öllum starfsmönnum Landspítala verður boðinn þriðji skammtur sex mánuðum eftir að annar skammtur hefur verið gefinn. Í síðustu viku var starfsfólki sem hafði fengið bóluefni Pfizer boðið í þriðja skammt og eftir mánuð verður sömu sögu að segja af starfsfólki sem fékk bóluefni Moderna. Aðspurð segir Vigdís að meirihluti starfsfólk hafi þegið þriðja skammt í síðustu viku en heimturnar séu ekki alveg jafn góðar og hvað fyrsta og annan skammt varðar. Mögulega vilja starfsmenn láta árið líða og sjá hvernig faraldurinn þróast áður en þeir þiggja þriðja skammtinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert