Már Kristjánsson, yfirlæknir á smitsjúkdómadeild Landspítala, vill ekki að ráðist sé í frekari afléttingar á sóttvarnatakmörkunum innanlands.
Hann segir að tölur undanfarinna daga bendi til þess að smit sé útbreitt í samfélaginu og því verði að gæta að starfsemi spítalans. Þannig útskýrir hann að æ fleiri virðast vera að greinast utan sóttkvíar sem gefi til kynna að smit sé útbreitt.
„Það er fráleitt að vera hér með afléttingu. Ég held, þvert á móti, að við eigum segja: Hvernig getum við staðið vörð um frelsi okkar til að þurfa ekki að vera með allt of miklar íþyngjandi aðgerðir? Jú, við gerum það með því að viðhalda grímuskyldu í samfélaginu á þeim stöðum þar sem við komum saman,“ segir Már og vísar til hvers kyns viðburðahalds á sviði menningar og íþrótta en einnig í verslunum.
„Við þurfum að vera stöðugt að hvetja fólk til persónubundinna varna, handþvottar og annað slíkt. Ég held að með þessum aðgerðum, sem eru svona almennt hreinlæti og snyrtimennska og skynsamlegar varnir, þá munum við draga úr útbreiðslu Covid og öðrum árstíðarbundnum veirusýkingum. Það er ekki bara ávinningur fyrir heilbrigðiskerfið og spítalann heldur fyrst og fremst fyrir atvinnustarfsemi í landinu og fyrir okkar sem einstaklinga í samfélaginu,“ bætir Már við.
„Mér finnst þetta vera mjög einfalt mál,“ segir hann svo.
Nýlega komu upp kórónuveirusmit á meðal sjúklinga Landspítala. Már segir að smitin hafi verið alls sex, fimm meðal sjúklinga og eitt meðal starfsmanna.
Már segist ekki vita nákvæmlega hve margir hafi þurft í sóttkví vegna þessa en hann segir að fjöldinn hlaupi á tugum manna.
Hann segir enn fremur að nýtilkomin enduropnun legudeildar smitsjúkdómadeildar sé meðal annars til komin vegna þessara smita.
„Þessi uppákoma varð svona til þess að við opnuðum að fullu deildina hjá okkur, við töldum það vera svona praktískara að hafa þessa sjúklinga á einum stað í stað þess að hafa þetta dreift um allan spítalann,“ segir Már.