Kortlagning á búsetu í atvinnuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu hófst formlega í gær. Kortlagningin er fyrsti liður í samstarfsverkefninu Örugg búseta fyrir alla. Áætlað er að fjöldi íbúa í atvinnuhúsnæði skipti þúsundum. Þetta segir Anna Guðmunda Ingvarsdóttir, aðstoðarforstjóri Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar í samtali við mbl.is.
„Okkar áætlanir gera ráð fyrir því að þetta sé allt upp í 5-7 þúsund manns og það er rosalega mikill fjöldi. Þannig ég bara vona svo sannarlega að það sé minna heldur en það.“
Síðasta kortlagning hafi farið fram árið 2016 og því löngu orðið tímabært að endurmeta stöðuna svo hægt sé að finna lausnir á vandanum, að sögn Önnu.
„Þegar þessari kortlagningu lýkur verðum við komin með ákveðna heildaryfirsýn yfir stöðuna og þá verður það okkar verkefni að taka þetta saman og fara með þær niðurstöður til þeirra sem ráða stefnumótun í þessum málum, þ.e. ráðuneytin og sveitarfélögin og vinna með þeim að tillögugerð um það hvernig við getum raunverulega leyst þennan vanda. Þannig þetta verði síðasta skýrslan sem gerð er um málið.“
Hún segir að fram að þessu hafi kortlagning á búsetu í atvinnuhúsnæði eingöngu snúist um brunavarnir en að nú verði einnig tekið mið af félagslegri aðstöðu íbúa.
„Við teljum okkur ekki geta búið til jafn vel ígrunduð úrræði eða lausnir nema að ná þessum upplýsingum.“
Spurð segir Anna ýmsar tillögur um úrbætur á vandanum hafa verið ræddar en að ekki hafi náðst sátt um neina þeirra ennþá.
„Til þess að við getum haldið því samtali áfram þá þurfum við að fá þessar niðurstöður og í raun ábyrgð þeirra sem að þessum málum koma. Að þeir fái þessar niðurstöður og vinni svo raunverulega með þær.“