Alltaf jólin fyrir norðan

Ragnheiður Hreiðarsdóttir, Benedikt Ingi Grétarsson og Margrét Vera við búðarborðið …
Ragnheiður Hreiðarsdóttir, Benedikt Ingi Grétarsson og Margrét Vera við búðarborðið í jólahúsinu. Ljósmynd/Hulda Harðardóttir

Fyrir liðlega aldarfjórðungi stofnuðu hjónin Benedikt Ingi Grétarsson og Ragnheiður Hreiðarsdóttir gjafavöruverslunina Jólagarðinn í Sveinsbæ í Eyjafjarðarsveit, um átta km inn af miðbæ Akureyrar. Þar er sitt lítið af hverju í Eplakofanum, Pop-Up Brothers-bragganum, Bakgarði „tante Grethe“ og sjálfu jólahúsinu, en þar hefur jólastemningin ráðið ríkjum frá því reksturinn hófst.

„Grunnhugsunin var að skapa störf fyrir okkur og börnin á meðan þau væru að vaxa úr grasi,“ segir Benedikt um stofnunina 31. maí 1996. „Við töldum að starfseminni lyki þegar við hjónin færum í gröfina en þegar Margrét Vera, dóttir okkar, vildi koma inn í reksturinn settum við stefnuna á að minnsta kosti 100 ár.“

Kórónuveiran hefur víða sett strik í reikninginn en Benedikt kvartar ekki. „Íslendingar hafa alltaf verið traustir viðskiptavinir en þeir hafa aldrei verið fleiri hjá okkur en tvö undanfarin sumur. Það sem okkur þykir vænst um er að börn sem komu með foreldrum sínum, þegar við byrjuðum, eru farin að mæta með sín börn, þannig að hver kynslóð tekur við af annarri.“

Enginn vöruskortur

Að undanförnu hefur verið rætt um vöruskort vegna veirunnar og jafnvel að jólavörur komi ekki til landsins fyrr en eftir áramót, en það hefur engin áhrif á Jólagarðinn. „Jólin eru allt árið hjá okkur og því skiptir ekki máli hvenær við fáum vörurnar auk þess sem við erum með mjög marga birgja víðs vegar í heiminum og lendum aldrei í vandræðum.“

Synirnir þrír; Grétar Húnn, Tómas Karl og Benedikt Fáfnir, aðstoðuðu við afgreiðsluna þegar þeir voru yngri og hafa síðan séð um jólaljósin, byggingarnar og allt annað sem til fellur á jólaheimilinu. Ragnheiður á mörg systkini og Benedikt systur. Hann segir að afkomendur flestra þeirra hafi unnið hjá fyrirtækinu á sumrin auk annarra starfsmanna. „Þetta er því sannkallað fjölskyldufyrirtæki.“

Benedikt segir að nóg sé að gera á sumrin, ekki síst við að búa til popp, möndlur, kaffibrauð, smákökur, laufabrauð og annað meðlæti fyrir gesti. „„Útikaffihúsið“ okkar, sem er ekki kaffihús, hefur slegið í gegn. Þetta er sennilega eina kaffihúsið sem rekið er undir berum himni árið um kring og gestir njóta þess að fá sér kaffi eða kakó og með því hvernig sem viðrar.“

Flest sem viðkemur jólum og jólaskreytingum má fá í jólahúsinu. „1998 létum við fjöldaframleiða jólasveina, sem Sunna Björk Hreiðarsdóttir teiknaði fyrir okkur, og „jólasveinarnir okkar“, eins og við köllum þá, hafa síðan selst best á hverjum tíma,“ segir Benedikt.

Að sjálfsögðu hljómar jólatónlist í jólahúsinu allt árið. „Frá byrjun höfum við spilað disk með John Denver og Prúðuleikurunum og annan með Ladda og Strumpunum, en um þetta leyti árs bætast svo við fleiri jólalög fram að hátíðinni sjálfri.“

Benedikt segist leggja mikið upp úr því að taka vel á móti gestum. „Við viljum að þeir finni að þeir séu velkomnir, að andrúmsloftið sé jákvætt, og það hefur sýnt sig að það fellur í góðan jarðveg, því þeir koma aftur og aftur.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert