Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir að nú blasi við tækifæri til að stokka upp eftirlitsstofnanir í landinu með hagræðingu að leiðarljósi, án þess að slaka á kröfum eða fórn hagsmunum almennings. Þetta kemur fram í aðsendri grein sem birtist í Morgunblaðinu í dag.
Í upphafi nýs kjörtímabils ætti þetta að vera verkefni nýrrar ríkisstjórnar, að hans mati. Það megi ekki vera þannig að skipting verkefna á milli ráðuneyta ráði því að reka þurfi allar þessar stofnanir.
„Nútímalegar aðferðir eins og rafrænt eftirlit með gæðakerfum, eftirlit með tilviljanakenndu úrtaki, tölfræðigreiningar og skoðanir með tilliti til metinnar áhættu geta skilað hagræðingu og betri þjónustu en á sama tíma uppfyllt kröfur um nauðsyn opinbers eftirlits með tiltekinni starfsemi,“ segir Halldór meðal annars.
Hann fer yfir helstu stofnanir ríkis og sveitarfélaga sem hafa eftirlit með þjónustu og framleiðslu fyrirtækjanna í landinu. Hvernig eftirlitsmenn hverrar stofnunar fyrir sig fari yfir ákveðna þætti en láti aðra afskiptalausa þar sem það sé í verkahring annarra stofnana að fara yfir þá.
„Vinnueftirlit, níu heilbrigðiseftirlit hvert á sínu svæði jafnvel með mismunandi kröfur, Umhverfisstofnun, Matvælastofnun og Fiskistofa eru dæmi um opinbera aðila sem senda fólk út af örkinni.
Eftirlit með að vörur á markaði uppfylli settar kröfur hafa m.a. Neytendastofa, Umhverfisstofnun, Vinnueftirlit, heilbrigðiseftirlitin, Matvælastofnun og Fjarskiptastofa og heimsækja í þessu skyni verslanir og skoða upplýsingar á merkimiðum og jafnvel verðmerkingar.“
Hann segir eftirlitið almennt fara þannig fram að starfsmaður stofnunar komi í heimsókn og kanni hvort aðstæður í fyrirtækinu séu í samræmi við lög og reglur. Skoðuð séu skjöl og önnur gögn, rætt við fólk og lagt mat á hvort gera þurfi athugasemdir við starfsemina stórar eða smáar. Veittur sé tiltekinn frestur til úrbóta og síðan taki við þyngri aðgerðir, álagning sekta eða jafnvel stöðvun starfsemi að hluta eða í heild.
Þá megi ekki gleyma öllum leyfunum sem þessar stofnanir veita, sem að hans mati mætti að ósekju fækka mikið með því að leggja áherslu á að fyrirtækin tilkynni starfsemi sína og leggja með því áherslu á atvinnufrelsi og að fólk geti stofnað til reksturs án þess að leggja inn umsóknir um leyfi. Viðkomandi þurfi að sjálfsögðu að kynna sér reglur sem um starfsemina gilda.
„Það má jafnvel hafa í huga að á síðustu árum hefur virkt eftirlit almennings með þjónustu, gæðum og verðlagi tekið miklum breytingum með þátttöku fólks á samfélagsmiðlum. Þar er þjónustan vegin og metin og fyrirtækin bregðast í flestum tilvikum hratt og vel við. Þetta er mun fljótvirkara en stopular og tilviljanakenndar heimsóknir opinbers eftirlitsfólks.“