Eiríkur Sigurbjörnsson, stofnandi Omega og sjónvarpspredikari á samnefndri stöð hefur áfrýjað til Landsréttar dómi héraðsdóms sem dæmdi hann í tíu mánaða skilorðsbundið fangelsi og til að greiða 109 milljónir í sekt vegna brota á skattalögum. Þetta má sjá í áfrýjunarskrá Landsréttar.
Var Eiríkur dæmdur fyrir að hafa ekki gefið upp tekjur upp á 78,5 milljónir á árunum 2011-2016 í tengslum við starfsemi Omega og þannig komist hjá því að greiða skatta upp á 36 milljónir.
Ríkisskattstjóri hóf árið 2016 af eigin frumkvæði skoðun á notkun á erlendum greiðslukortum hér á landi. Í framhaldinu var notkun Eiríks á kortum í nafni dótturfélags Omega í Noregi tekin til skoðunar og var hann ákærður vegna málsins.
Var hann fundinn sekur um að hafa ekki gefið upp sem laun greiðslur frá norska dótturfélaginu til sín. Voru greiðslurnar færðar sem lán, en slíkar lánagreiðslur eru þess utan óheimilar til eigenda einkahlutafélaga samkvæmt ákvæðum laga um einkahlutafélög.
Eiríkur var dæmdur til greiðslu þrefaldrar þeirrar upphæðar sem hann var fundinn sekur um að hafa komist hjá að greiða, eða samtals 109 milljónir.