Eldur kviknaði í kofa í bakgarði í Grindavík um hálfellefuleytið í kvöld. Ekki var um að ræða mikinn eld og tók það slökkvilið stuttan tíma að ráða niðurlögum eldsins.
Theodór Ingi Þrastarson varðstjóri hjá slökkviliði Grindavíkur segir í samtali við mbl.is að ekki hafi verið um að ræða mikinn eld. „Þetta var svona bara lítill dúkkukofi eins og maður segir.“
Slökkvistarf hafi þá gengið hratt og örugglega fyrir sig. Þá segir hann ekki ljóst að svo stöddu hvað olli eldinum. Enn fremur sé ekki algengt að eldur kvikni í svona skúrum og kofum.