Fordæma yfirlýsingu og aðgerðaleysi bæjarstjórnar

Hátt í hundrað íbúa og velunnara Hornafjarðar hafa skrifað undir …
Hátt í hundrað íbúa og velunnara Hornafjarðar hafa skrifað undir yfirlýsinguna. mbl.is/Sigurður Bogi

Hátt í hundrað íbúa og velunnara sveitarfélagsins Hornafjarðar fordæma yfirlýsingu bæjarstjórnar og aðgerðaleysi í kjölfar dóms í kynferðisbrotamáli þar sem fyrrum stjórnandi hjá sveitarfélaginu var dæmdur fyrir kynferðislega áreitni gagnvart fyrrverandi starfsmanni. Stjórnandanum var ekki vikið úr starfi meðan rannsókn lögreglu á málinu fór fram.

Vísir greindi fyrst frá málinu. Um er að ræða tvær konur, en stjórnandinn var dæmd til tveggja mánaða skilorðsbundinnar fangelsisvistar fyrir brotið. Samkvæmt heimildum Vísis er umræddur stjórnandi systir bæjarstjórans, Matthildar Ásmundardóttur.

Krefjast þeir sem sem skrifa undir yfirlýsinguna þess að verkferferlar verði endurskoðaðir. Það sé með öllu óskiljanlegt, árið 2021, að enginn stuðningur við þolanda komi fram í yfirlýsingu frá bæjaryfirvöldum, en sú yfirlýsing birtist á heimasíðu sveitarfélagsins í gær. 

Í dómi héraðsdóms í málinu kemur fram að brotið hafi átt sér stað í vinnuferð í Reykjavík þar sem konurnar lágu hlið við hlið í rúmi á hótelherbergi. Var stjórnandanum gefið að sök að hafa tekið um hönd samstarfskonu sinnar og látið hana strjúka nakinn líkama sinn. Þegar hún gaf til kynna að hún vildi það ekki, mun ákærða hafa strokið henni utanklæða frá brjóstum og niður á læri. Í kjölfarið hafi hún lagt andlit sitt upp að andliti hennar og meðal annars spurt hana hvort þetta væri „ekki bara kósý?“

Í yfirlýsingu sveitarfélagsins frá því í gær kemur fram að þegar brotaþoli lagði fram kæru á hendur umræddum stjórnanda í apríl árið 2019 hafi staðgengill bæjarstjóra tekið að sér samskipti vegna málsins með stuðningi og ráðgjöf bæjarstjórnar. Áður en atvikið átti sér stað hafi brotaþoli hins vegar sagt upp störfum hjá sveitarfélaginu og samskipti hafi því fyrst og fremst snúist um vinnutilhögun það sem eftir var af uppsagnarfresti, sem ákveðið var að yrði í fjarvinnu, að ósk brotaþola.

Í  yfirlýsingunni segir jafnframt að þegar fyrst hafi verið tilkynnt um málið hafi verið ágreiningur um málsatsvik. Því hafi verið hafin rannsókn lögreglu. Þar sem brotaþoli hafi ekki verið undirmaður umrædds stjórnanda, starfaði ekki með honum dags daglega og hafi þegar sagt starf sínu lausu, var litið svo á að ekki væri tilefni til frekari aðgerða meðan rannsókn lögreglu stóð yfir. Þegar hins vegar ákæruvaldið tók ákvörðun um að ákæra í málinu í mars árið 2021, hafi starf stjórnandans færst til annars vinnuveitanda og stjórnandinn því ekki lengur verið starfsmaður sveitarfélagsins. Þegar dómur svo féll nú í október, hafi því ekki verið neinar forsendur til aðgerða af hálfu sveitarfélagsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert