Fyrirkomulag rjúpnaveiði enn óljóst

Rjúpa á veiðislóð.
Rjúpa á veiðislóð. mbl.is/Ingólfur Guðmundsson

Fundur full­trú­a hags­munaaðila og stjórn­sýslu sem tengj­ast rjúpna­veiðum fór fram í dag. Eftir fundinn átti að taka ákvörðun um veiðifyr­ir­komu­lag á rjúpna­veiðum í ár. Fyrirkomulagið liggur þó enn ekki fyrir en sam­kvæmt nú­gild­andi reglu­gerð mega veiðar hefjast 1. nóv­em­ber, eða strax á mánu­dag. Þetta staðfestir Áki Ármann Jónsson, formaður Skotveiðifélags Íslands, í samtali við mbl.is en hann var nýkominn af fundinum þegar blaðamaður náði tali af honum.

„Á fundinum var bara verið að reifa hugsanlega kosti. Það var bara farið yfir þessa kosti sem Umhverfisstofnun setti upp í sinni greinagerð og ráðherra bað svosem bara um trúnað og lét ekkert upp um sína afstöðu.“

Hann segist þó búast við því að ákvörðun verði tekin og fyrirkomulagið gefið út annaðhvort í kvöld eða á morgun, þar sem umhverfis- og auðlindaráðherra sé á leiðinni út úr landi.

Inntur eftir því segir hann vinnubrögð ráðuneytisins „alls ekki“ geta talist eðlileg.

„Við erum kallaðir fyrst að borðinu klukkan eitt á fimmtudegi, rétt fyrir rjúpu, til þess að segja okkar hlið og svo ætla þeir að gefa þetta út eftir einn dag. Þetta er bara ekki vel unnið og það virðist bara vera þanni að þegar kemur að rjúpunni þá finni menn alltaf nýja leið til að gera þetta alveg rosalega erfitt og skrítið og þetta þarf ekki að vera svona.“

Segir „gríðarlegan urg“ vera í veiðimönnum

Þá séu veiðimenn ekki par sáttir við það hve langan tíma málið hefur tekið.

„Það er gríðarlegur urgur í veiðimönnum yfir því að það sé verið að hræra í þessu rétt fyrir veiðitímann. Síðan fer bara eftir því hvað verður gert hvað framhaldið verður á því. Það fer allt í háaloft ef menn reyna ekki að gera þetta í sátt við veiðimenn því veiðimenn vilja taka ábyrgð og sýnt það með því að minnka veiðina um 50-60%.“

Óljóst er hvort rjúpnaveiði verði einfaldlega bönnuð í ár, að sögn Áka.

„Ég veit bara eiginlega ekkert hvað er líklegt lengur og hvað ekki. Ég veit það bara að svona vinnubrögð rétt fyrir veiðitíma eru ekki til eftirbreytni.“

Ekki náðist í Guðmund Inga Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, við vinnslufréttarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert