Langflestir vilja óbreytta ríkisstjórn, að því er greint frá í nýjum þjóðarpúlsi Gallup. Þegar fólk er spurt hvaða flokka það vilji að myndi nýja ríkisstjórn er Framsóknarflokkurinn sá flokkur sem er oftast nefndur, næst Vinstri græn og þar á eftir Sjálfstæðisflokkurinn.
Ríflega 77% nefna Framsóknarflokkinn, nær 72% Vinstri græn en tæplega 57% Sjálfstæðisflokkinn. Næstum 34% nefna Samfylkinguna, rúmlega 28% Pírata, um 26% Viðreisn og rúm 23% Flokk fólksins. Tæplega 8% nefna loks Miðflokkinn.
Röðin er nánast sú sama og eftir alþingiskosningar 2017 en hlutfallið er aðeins breytt þar sem hærra hlutfall nefnir stjórnarflokkana þrjá nú en áður, þ.e. Framsóknarflokk, Vinstri græn og Sjálfstæðisflokk, en lægra hlutfall nefnir aðra flokka nú en síðast. Mesta lækkunin er hjá Miðflokknum.
Þá virðist sem kyn, tekjur, búseta og menntun séu ráðandi þættir í afstöðu þáttakenda í könnuninni.
Til að mynda eru fleiri karlar en konur sem vilja sjá Framsóknarflokk í ríkisstjórn og fólk vill það frekar eftir því sem það er eldra og tekjuhærra. Fólk yfir fertugu vill frekar en yngra fólk sjá Sjálfstæðisflokkinn í ríkisstjórn. Fólk undir fertugu vill frekar en eldra fólk sjá Pírata í ríkisstjórn og fólk er líklegra til að vilja sjá þá í ríkisstjórn eftir því sem það hefur meiri menntun að baki. Fólk með minni menntun en meiri er líklegra til að vilja sjá Flokk fólksins í ríkisstjórn og er fólk líklegra til að vilja það eftir því sem það hefur lægri tekjur. Íbúar höfuðborgarsvæðisins nefna Viðreisn frekar en íbúar lansdbyggðarinnar. Íbúar landsbyggðarinnar vilja hins vegar frekar en höfuðborgar
Mikill munur er á því hve margir nefna viðkomandi flokk eftir því hvaða flokk fólk kaus og vilja eðlilega flestir sjá þann flokk sem það kaus í ríkisstjórn.
Til að mynda nefna ríflega 95% kjósenda Sjálfstæðisflokks Framsóknarflokk en 73% Vinstri græn. Nær 86% kjósenda Framsóknarflokks nefna Sjálfstæðisflokk og rúmlega 76% Vinstri græn. Ríflega 86% kjósenda Vinstri grænna nefna Framsóknarflokk en aðeins 56% Sjálfstæðisflokk.
Þegar fólk er spurt hvaða flokkar það vilji að myndi nýja ríkisstjórn velja langflestir núverandi stjórnarflokka, eða meira en þriðjungur svarenda. Þess má geta að eftir alþingiskosningarnar 2017 nefndu um 11% svarenda þá samsetningu.
Fólk er heldur líklegra til að vilja óbreytta stjórn eftir því sem það er eldra og fólk með hærri fjölskyldutekjur er líklegra til að vilja óbreytta stjórn en fólk með lægri tekjur. Fólk með háskólamenntun er almennt ólíklegra til að vilja óbreytta stjórn en fólk með minni menntun að baki.
Mikill munur er á því hvaða flokka fólk vill sjá saman í ríkisstjórn eftir því hvaða flokk það kaus. Tveimur af hverjum þremur kjósendum Sjálfstæðisflokksins hugnast best áframhaldandi samstarf núverandi stjórnarflokka og litlu færri kjósenda Framsóknarflokksins á meðan tæplega helmingi kjósenda Vinstri grænna hugnast það best. Kjósendum annarra flokka hugnast önnur stjórnarmynstur betur.