Lóðaúthlutunaráætlun Reykjavíkurborgar til næstu tíu ára var kynnt á fundi borgarráðs í dag. Í áætluninni, sem ætlað er að auka fyrirsjáanleika er varðar úthlutun lóða til íbúauppbyggingar, eru tilgreindar lóðir undir 10.260 íbúðaeiningar.
Lóðaúthlutun hjá borginni er skipt í þrjá mismunandi flokka. Almennar lóðir sem seldar verða með útboðsfyrirkomulagi, lóðir sem úthlutað verðir í verkefni tengdum hagkvæmum og grænum húsnæðislausnum og að lokum lóðir sem úthlutað verður til húsnæðisfélaga.
Flestar lóðirnar falla undir útboðsfyrirkomulagið en áætlað er að byggðar verði 5.318 íbúðir á næstu tíu árum. Lóðum undir 3.536 íbúðir verðir úthlutað til húsnæðisfélaga og þá verða lóðum úthlutað undir 1.406 íbúðir í verkefni tengd grænum og hagkvæmum húsnæðislausnum.
Nokkuð jöfn dreifing er á úthlutun lóða milli ára samkvæmt áætluninni, en að jafnaði er stefnt að uppbyggingu um 1.000 íbúða á ári hverju.
Heilt yfir er um að ræða 37 mismunandi lóðarreiti en þá er uppbygging 1.000 íbúða undir flokknum „aðrar lóðir – óstaðsett“. Uppbygging þeirra er þó ekki áætluð fyrr en seinni hluta áratugarins. Nánar til tekið á árunum 2027-2030.
Þau svæði sem stefnt er uppbyggingu flestra íbúða eru þá Skerjafjörður og nýtt hverfi við Ártúnshöfða. Á tveimur reitum í Skerjafirði er stefnt að úthlutun lóða fyrir 1.409 íbúðir.
Lóðum verður þá úthlutað undir uppbyggingu um 2.422 íbúðum á tveimur reitum í nýju hverfi við Ártúnshöfða. 827 íbúðir eru áætlaðar á reitnum „Bryggjuhverfi 3“ og svo 1.595 íbúðum á reitnum „Vogur“ í sama hverfi.