Rótarýklúbbur Borgarness stendur fyrir málstofu og atvinnusýningu laugardaginn 30. október í Hjálmakletti, menningarhúsi Borgarbyggðar í Borgarnesi. Málstofan ber heitið Matvælalandið Ísland – loftslagsmál og kolefnisspor og stendur frá kl. 10:30 til 12:30. Málstofan og sýningin eru öllum opin án endurgjalds.
Frummælendur verða Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra, Haraldur Benediktsson alþingismaður og bóndi, Kristján Oddsson, bóndi á Neðra-Hálsi og framleiðandi Biobu, og Ragnheiður I. Þórarinsdóttir, rektor Landbúnaðarháskóla Íslands.
Atvinnusýningin verður frá kl. 12:30 til 16. Þegar hafa þegar ríflega 30 aðilar skráð sig til leiks. Þar á meðal eru stofnanir og fyrirtæki eins og SSV – samtök sveitarfélaga á Vesturlandi, Landlínur, Límtré-Vírnet, Steypustöðin, Sögufélag Borgarfjarðar, Ljómalind, Bílabær, Eiríkur Ingólfsson ehf., Hótel B59, Efla, Landbúnaðarháskóli Íslands, Englendingavík, útfararþjónustan Borg, Skógræktarfélag Borgarfjarðar, Landnámssetur og margir fleiri.
Meðan á atvinnusýningunni stendur verður boðið upp á tónlistaratriði. Ásta Marý Stefánsdóttir og Heiðmar Eyjólfsson munu koma tvisvar fram og syngja og leika á gítar. Krílakórinn mun einnig stíga á stokk sem samanstendur af börnum úr Borgarbyggð á aldrinum 3-5 ára sem syngja munu með sínu nefi undir stjórn Birnu Þorsteinsdóttur. Nemendur í Menntaskóla Borgarfjarðar sjá um veitingar meðan á málstofunni og sýningunni stendur.
Styrktaraðilar málþingsins og sýningarinnar eru Rótarýumdæmið á Íslandi, sveitarfélagið Borgarbyggð og Arion banki. Birna G. Konráðsdóttir er forseti Rótarýklúbbs Borgarness þetta starfsár.