Skjálftahrina við Grímsey

Grímsey.
Grímsey. Ljósmynd/Sigurður Bogi

Jarðskjálfti um 3,9 að stærð var við Grímsey klukkan sex mínútur yfir tíu í kvöld. 

Á vef Veðurstofu Íslands segir að upptökin hafi verið 12,3 kílómetra Norðnorðaustan af eyjunni á 11,3 kílómetra dýpi. 

Fjórir minni jarðskjálftar nærri Grímsey mældust á nokkurra mínútna tímabili í kvöld, sá stærsti 2,5 að stærð. Allir átti þeir sér upptök um 10 til 11,5 kílómetrum norðaustan við Grímsey. 

Uppfært 23:10

Einar Hjörleifsson, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir ekkert óeðlilegt í sjálfu sér við skjálftana sem mældust í kvöld. 

Um sé að ræða hefðbundna skjálftavirkni á svæði sem er „skjálftalega séð mjög virkt“. Hann segir þetta vera níunda skjálftann í ár sem mælist yfir þremur að stærð á svæðinu. 

Hann segir ekki mikla hættu stafa af skjálftanum og að íbúar Grímseyjar séu eflaust orðnir vanir slíkum skjálftum. Þó sé ávallt óþægilegt þegar að svona stórir skjálftar mælast. 

Þá hafa engir eftirskjálftar mælst í kjölfar þess stóra sem mældist nú lauslega upp úr tíu í kvöld. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert