Smit greindist á sjúkrahúsinu á Selfossi

Sjúkrahúsið á Selfossi.
Sjúkrahúsið á Selfossi. Rax / Ragnar Axelsson

Kórónuveirusmit kom upp á sjúkrahúsinu á Selfossi í gærkvöldi. Sjúklingur, sem lá inni vegna annarra ástæðna en Covid-19, greindist smitaður af veirunni.

Baldvina Ýr Hafsteinsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands, staðfestir þetta í samtali við mbl.is.

Baldvina segir engan grun hafa leikið á að viðkomandi einstaklingur væri smitaður enda lá hann inni vegna annarra ástæðna. Aðstandandi viðkomandi, sem hafði komið og heimsótt einstaklinginn á sjúkrahúsið, hafi síðar greinst smitaður og í kjölfar þess hafi viðkomandi sjúklingur greinst jákvæður.

Þrjátíu einstaklingar skimaðir í kjölfar smits 

„Deildin hjá viðkomandi var bara sótthreinsuð og nýtt fólk sett í vinnu. Þá voru þetta um þrjátíu starfsmenn og aðrir tengdir sem þurfti að skima vegna smitsins,“ segir Baldvina.

Hún segir bólusetningar starfsmanna og persónulegar sóttvarnir þeirra líklegast vega þungt í því að allar niðurstöður úr skimunum á starfsfólki hafi reynst neikvæðar. Þó bendir hún á að enn eigi eftir að koma út úr nokkrum skimunum.

Hún segir starfsemi spítalans hafa verið í ákveðnu lágmarki í dag en þó ekki þannig að um lamasess sé að ræða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert