Maðurinn sem var handtekinn af sérsveit lögreglu í lok júní eftir að hafa ógnað fólki við kaffistofu Samhjálpar með byssu var dæmdur í þriggja ára fangelsi í síðustu viku. Þá var hann einnig sviptur ökuréttindum ævilangt og skammbyssan sem hann notaði gerð upptæk.
Mbl.is greindi frá dómi héraðsdóms fyrr í vikunni sem hefur nú verið birtur á vef héraðsdóms. Kemur þar fram að ákærða hafi verið gefið að sök að hafa, á leið sinni frá Borgartúni og að Sæbraut, dregið skammbyssuna upp og beint henni í ýmsar áttir þar sem vegfarendur áttu leið um. Ákærði var sýknaður af þessum lið ákærunnar þar sem ekki var hægt að sanna þessa háttsemi.
Í dómnum kemur fram að við ákvörðun refsingar hafi verið tekið tillit til þess að ákærði játaði hluta brota sinna. Jafnframt var tekið tillit til alvarleika háttsemi hans, þar sem ljóst þykir að það að ógna fólki með byssu er til þess fallið að það óttist mjög um líf sitt.
Ákæruliðir málsins eru fimm, ákærða er gefið að sök að hafa brotið gegn vopnalögum, með því að eiga skammbyssu án skotvopnaleyfis. Honum er þá gefið að sök að hafa tvisvar beint hlaðinni skammbyssu að tveimur aðilum þar sem þeir voru staddir í húsnæði Samhjálpar við Borgartún.
Ákærði játaði að hafa beint byssunni að öðrum aðilanum, sem hann kvaðst hafa átt óuppgerðar sakir við, en neitaði að hafa beint henni að þeim báðum.
Þá á ákærði að hafa brotið gegn valdstjórninni með því að hafa beint hlaðinni skammbyssu að fjórum lögreglumönnum þar sem þeir voru við skyldustörf. Ákærði neitaði sök og kveðst hafa sýnt lögreglumönnum vopnið til að kaupa sér frið, hann hafi ekki ógnað þeim og byssan verið óhlaðin og var hann sýknaður af þeirri ákæru.
Í framburði ákærða greindi hann frá því að hann hefði verið í slæmu ástandi þennan dag undir áhrifum fíkniefna. Ákærði hefur sex sinnum hlotið dóm fyrir ýmis brot gegn umferðarlögum, fíkniefnalögum, tollalögum og almennum hegningarlögum.
Uppfært
Fram hafði komið í fréttinni að maðurinn hafði beint hlaðinni skammbyssu að fjórum lögreglumönnum, hið rétta er þó að hann var sýknaður af þeirri ákærulið.