„Þetta snýst bara ekk­ert um mig“

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fyr­ir um einu og hálfu ári sungu þjóðþekkt­ir lista­menn með Þórólfi sótt­varna­lækni og þríeyk­inu og báðu land­ann um að ferðast inn­an­húss. Samstaða virt­ist ríkja um að til þess að tak­ast á við kór­ónu­veirufar­ald­ur­inn þyrfti sam­stillt átak Íslend­inga um að hlýða Víði og ganga um gólf fyr­ir Þórólf, við vær­um jú öll Alma(nna­varn­ir). 

Í dag er þessu víða ekki að heilsa og hags­muna­sam­tök, al­menn­ir borg­ar­ar og kjörn­ir full­trú­ar út­hrópa Þórólf Guðna­son sem óvin frels­is, sem leggi heilu at­vinnu­grein­arn­ar í rúst og segja jafn­vel orðræðu hans ein­kenn­ast af hræðslu­áróðri. 

Í sam­tali við mbl.is seg­ir Þórólf­ur þó að hann kippi sér ekki of mikið upp við þetta.

Gjarn­an er talað um að menn „missi klef­ann“ þegar stuðning­ur til þeirra þverr­ar og það hef­ur verið sagt um Þórólf. Spurður að því hvað hon­um finn­ist um það og hvort klef­inn sé einu sinni hans að missa, hvort það sé ekki frek­ar ráðherra, seg­ir hann:

„Ég held að það sé bara okk­ar allra og það er ykk­ar fjöl­miðla líka. Umræður síðustu vikna hafa verið þannig, bara op­in­ber­ar umræður í stjórn­mál­un­um, bara víðs veg­ar og í fjöl­miðlum, það er varla sá þátt­ur að menn segi ekki að þetta sé bara búið og að það þurfi ekk­ert að standa í þessu. Þetta hafa menn verið að taka upp hver eft­ir öðrum. En ég hef verið að reyna að and­mæla þessu og þess vegna hef ég upp­lifað mig sem svona hróp­and­ann í eyðimörk­inni að tala um þetta.“

Hróp­and­inn í eyðimörk­inni

Þórólf­ur seg­ir að hann viti full­vel að Íslend­ing­ar séu orðnir langþreytt­ir á sótt­varna­tak­mörk­un­um og skertu frelsi en hann seg­ist ein­fald­lega að verða að halda áfram að ræða stöðu far­ald­urs­ins eins og hún virki­lega er. Geri hann það ekki sé hann ekki að sinna skyldu sinni.

„Ég veit að það eru all­ir orðnir hund­leiðir á þess­ari veiru og sam­nefn­ar­inn kannski fyr­ir þessa leiðin­legu umræðu hef­ur verið sótt­varna­lækn­ir. Og ég hef nú verið það mikið í fjöl­miðlum að menn svona líta á sótt­varna­lækni sem ein­hvern hold­gerv­ing þess­ara aft­ur­haldsafla, sem vilja tak­marka frelsi og eitt­hvað svona, seg­ir Þórólf­ur og bæt­ir við:

„En það verður bara að halda áfram með þenn­an sanna og rétta mál­flutn­ing um það hvað er að ger­ast með þessa veiru. Það er mitt lög­boðna hlut­verk. Ef ég gerði það ekki þá væri ég að bregðast mín­um skyld­um, þannig ég hef þær skyld­ur við stjórn­völd og al­menn­ing að vara við hættu við svona ástandi og koma með til­lög­ur um hvað þarf að gera og ég verð að gera það. Síðan er það stjórn­valda að ákveða, þau bera end­an­lega ábyrgð á því sem er gert. Ég svosem kveinka mér ekk­ert und­an því að menn hnýti í mig eitt­hvað út af þessu, en þetta snýst bara ekk­ert um mig, þetta er ekk­ert spurn­ing­in um það.“ 

Sóttvarnatakmarkanir eru endanlega í höndum stjórnvalda og því á ábyrgð …
Sótt­varna­tak­mark­an­ir eru end­an­lega í hönd­um stjórn­valda og því á ábyrgð þeirra, seg­ir sótt­varna­lækn­ir, sem hér sést sitja við hlið Svandís­ar Svavars­dótt­ur heil­brigðisráðherra. mbl.is/​Krist­inn Magnús­son

Tvennt í boði: Tak­mark­an­ir eða neyðarástand

Þórólf­ur seg­ir að marg­ir hafi að und­an­förnu litið til Evr­ópu og ná­grannaþjóða okk­ar, sem marg­ar hverj­ar hafa aflétt öll­um sótt­varna­tak­mörk­un­um. Hann seg­ir að fólki lá­ist alla jafna að horfa í stöðuna sem upp er kom­in í kjöl­far þess­ara aflétt­inga. 

„Mönn­um hef­ur verið tíðrætt um það sem er að ger­ast í Evr­ópu og að allt sé svo gott þar og búið að aflétta öllu en það er bara ekk­ert þannig. Það eru tak­mark­an­ir í mörg­um lönd­um, flest­um ná­læg­um lönd­um, og við sjá­um til dæm­is á Norður­lönd­un­um að þar er far­ald­ur­inn að fara upp. Far­ald­ur­inn er að rjúka upp í Dan­mörku og við sjá­um hvað er að ger­ast í Eystra­saltslönd­un­um, þar er bara neyðarástand og far­ald­ur­inn er að fara upp í Þýskalandi og Bretlandi,“ seg­ir Þórólf­ur.

Þórólf­ur seg­ir ekk­ert í boði nema tak­mark­an­ir.

„Þannig hvort sem okk­ur lík­ar bet­ur eða verr þá er þetta að ger­ast og vilj­um við fara á þann stað að það skap­ist hérna neyðarástand í heil­brigðismál­um og fyr­ir marga sjúk­linga? Menn þurfa bara að hugsa það þannig og ég er ekki viss um að það vilji það neinn. En menn verða bara að fá að reyna að spyrna við fót­um og gera það sem gera þarf og það er bara ekk­ert svo margt sem er í boði til að hefta út­breiðslu þess­ar­ar veiru, því miður, ég vildi að það væri ein­hver töfra­lausn.“

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert