Ungir Íslendingar á aldrinum 25-34 ára eru nú með lægri meðaltekjur og eru lengur að ná upp í meðaltekjur allra sem eru á vinnumarkaði heldur en áður, samkvæmt niðurstöðum rannsóknar sem gerð var við hagfræðideild Háskóla Íslands og kynntar verða í erindinu „Hvernig hefur þúsaldarkynslóðin það?“, sem hluti af dagskrá Þjóðarspegilsins 2021, við Háskóla Íslands á morgun.
Rannsóknin er unnin upp úr skattframtölum Íslendinga frá árunum 1981-2019, sem fengin eru af lokuðu vefsvæði Hagstofunnar og eru ópersónurekjanleg, að sögn Benedikts Axels Ágústssonar, hagfræðings og eins höfundar rannsóknarinnar.
„Við lögðum áherslu á að skoða meðaltekjur fólks á aldrinum 25-34 ára og hvernig tekjur þessa aldurshóps hefur breyst í hlutfalli við heildartekjur allra sem eru á vinnumarkaði og hafa skilað skattframtali. Við skoðuðum það m.a. út frá kyni og menntun.“
Í samantekt um niðurstöður rannsóknarinnar segir að ráðstöfunartekjur unga fólksins hafi hækkað hægar frá árinu 1993 en meðalráðstöfunartekjur, eða úr 0,98 í 0,79 frá árinu 1993 til ársins 2019, þar sem 1 merkir meðalráðstöfunartekjur allra á vinnumarkaði.
Þá hafi einnig komið í ljós kynjamunur en hlutfallsleg laun ungra karla hafa lækkað úr 1,3 árið 1989 í 0,81 árið 2019 á meðan hlutfallsleg laun ungra kvenna hafa hækkað úr 0,62 í 0,75. Þessa þróun megi annars vegar rekja til hlutfallslega meiri fjölgunar kvenna með háskólagráðu og hins vegar lækkunar hlutfallslegra ráðstöfunartekna háskóla-menntaðs ungs fólks.
„Í kringum 1990 voru meðaltekjur ungs fólks svipaðar meðaltekjum allra en síðan þá eru þær komnar undir 80% af meðaltekjum allra á vinnumarkaði,“ segir Benedikt.
Inntur eftir því segir hann ýmsa þætti geta hafað orsakað þessa þróun, þar á meðal breytta afstöðu ungs fólks til barneigna, fasteignakaupa og hjúskapar.
„Við skoðuðum þessi hlutföll og sáum t.d. að árið 1983 átti 70% fólks á aldrinum 25-34 ára barn og 60% þeirra voru gift. Árið 2019 áttu 37% barn og einungis 18% voru gift. Við sáum líka að hlutfall þeirra sem áttu fasteign og voru með fasteignalán, s.s. íbúðareigendur, voru um 30% árið 1992 en þeir voru komnir niður í 19% 2019. Þessi farvegur sem ungt fólk fer þegar það fullorðnast hefur breyst og er ekki alveg sá sami og hann var.
Þegar við skoðuðum meðaltekjur ungs fólks í hlutfalli við meðaltekjur allra þá sáum við líka að hækkun á meðaltalstekjum eldri borgara hefur hækkað meðaltalið svolítið heilt yfir og á sama tíma þá lækkað meðaltekjur ungs fólks.“
Hann segir ráðstöfunartekjur þó hafa hækkað hjá öllum aldurshópum í gegnum árin en það hafi gerst hraðar hjá sumum aldurshópum heldur en öðrum.
„Raunar sjáum við að ungt fólk í dag er með lægri meðaltekjur og er lengur að ná meðaltekjum en áður. Þannig þeir eru að byrja með lægri tekjur og eru lengur að komast upp í meðaltekjur.“
Inntur eftir því segir Benedikt aukið framboð af háskólamenntuðu fólki skýra lækkun á hlutfallslegum ráðstöfunartekjum háskólamenntaðs ungs fólks.
Aðrir höfundar rannsóknarinnar eru Axel Hall, lektor við Háskólann í Reykjavík og Gylfi Zoega, prófessor við Háskóla Íslands. Hagfræðingurinn Andri S. Scheving var þeim svo innan handar við vinnslu rannsóknarinnar.