Ragnar Freyr Ingvarsson, læknir og fyrrverandi yfirlæknir Covid-göngudeildar Landspítala, spurði í facebookfærslu í kvöld hvernig það væri að aðlaga spítalann samfélaginu en ekki öfugt. Þessi orð vöktu nokkra athygli en mbl.is sló á þráðinn til Ragnars og spurði hann nánar út í þessi orð:
„Ég held að það sé óhætt að segja þetta. Mér finnst að við eigum að gera Íslendingum kleift að lifa sínu lífi eins vel og hægt er án þess þó að stofna neinum í hættu og við eigum að búa þannig um hnútana að hægt sé að sinna þeim sem eru veikir. Það á við um alla sjúkdóma,“ segir Ragnar.
Spurður hvort hann finni fyrir því að aðrir í læknastéttinni séu sammála honum segir Ragnar: „Ég þori ekki að tala fyrir aðra kollega mína, það er best bara að tala fyrir sjálfan sig.“
Ragnar leggur áherslu á að Íslendingum hafi farið gríðarlega fram á síðustu misserum og staðan sé langt í frá sú sama og í byrjun faraldursins.
„Ef þú hugsar til baka þá hefur okkur farið alveg gríðarlega fram. Við erum með geysiöfluga bólusetningu, við erum með lyfjameðferð sem fyrirbyggir sýkingar og innlagnir. Við erum með öflugar meðferðir sem draga úr hættu á framgangi sjúkdómsins. Og við erum með meðferðir sem hindra að fólk látist úr þessum sjúkdómi,“ segir hann og heldur áfram:
„Við erum náttúrlega ekki stödd á sama stað og við vorum fyrir þremur eða fjórum bylgjum. Við kunnum miklu meira og við vitum miklu meira. Þannig að ég held að það sé skynsamlegt, þegar maður upplifir einhverja angist, að taka stöðuna og sjá að við höfum staðið okkur ótrúlega vel og eigum að halda því áfram og það þýðir það að við þurfum að stórefla Landspítalann til að glíma við þessa veirupest,“ segir Ragnar.
Ragnar segir að mikilvægasta talan sem beri að horfa til sé fjöldi innlagðra.
„Í dag skiptir fjöldi smita ekki eins miklu máli og áður, fjöldi innlagðra veldur meiri byrði. Í dag eru ekki eins margir innlagðir og voru áður, þeir liggja styttra og eru minna veikir af því að meðferðin er góð.
Það breytir ekki því að við eigum að passa okkur, gæta varúðarráðstafana og gæta að eigin sóttvörnum. Það gildir núna,“ segir hann að lokum.