Hugverkastofan hefur fellt úr gildi skráningu vörumerkisins World Class hér á landi samkvæmt alþjóðlegri skráningu.
Árið 2017 barst stofunni tilkynning frá Alþjóðahugverkastofnuninni (WIPO) um að sænska félagið World Class International Brand Sverige AB, sem er eigandi alþjóðlegrar skráningar á vörumerkinu World Class, færi fram á að skráningin gilti hér á landi.
Andmæli bárust frá stofunni Sigurjónsson & Thor sem sérhæfir sig í hugverkarétti, fyrir hönd Lauga ehf. Byggðu andmælin á ruglingshættu við merki andmælanda sem fela í sér orðin WORLD CLASS og hann telur sig hafa öðlast vörumerkjarétt til á grundvelli notkunar síðustu áratugina. Engar athugasemdir bárust frá sænska félaginu, en Viðskiptablaðið greindi fyrst frá málinu.
Fram kemur í úrskurði Hugverkastofunnar að þrátt fyrir að merkin samanstandi af lýsandi orðhluta verði ekki litið fram hjá því að stílfærsla meginþátta merkjanna sé nákvæmlega eins.
„Með vísan til alls framangreinds er það mat Hugverkastofunnar að heildarmynd merkjanna sé það lík að ruglingshætta sé til staðar með merki andmælanda, og merki eiganda, með vísan til 6. tl. 1. mgr. 14. gr. vml,“ segir í úrskurðinum.
Andmæli gegn skráningu WORLD CLASS-vörumerkis sænska félagsins voru því tekin til greina.
„Þegar við opnuðum ´85 var þetta vörumerki skráð undir merkjum Svíans sem átti þetta. Síðan kemur þessi beiðni frá Svíþjóð um að skrá þeirra vörumerki hérna. Það gekk ekki í gegn því við vorum fyrir,“ segir Björn Leifsson, stofnandi og einn eigenda World Class, sem er að vonum ánægður með úrskurð Hugverkastofunnar.
Spurður hvers vegna Svíarnir vildu skrá vörumerkið á Íslandi kveðst Björn ekki vita það. Hann segir þá vera með vörumerkið eins og það var skráð á sínum tíma í nokkrum löndum. Kannski hafi Svíarnir vilja rukka World Class eða banna fyrirtækinu að nota vörumerkið.
Hann bætir við að World Class á Íslandi hafi farið fram á að upphafleg skráning vörumerkisins hérlendis yrði gerð ógild vegna þess að fyrirtækið sem var skráð fyrir því á sínum tíma er ekki lengur til. Í beinu framhaldi af því stendur til að skrá núverandi World Class fyrir vörumerkinu, en vörumerkjaréttur getur stofnast með skráningu í vörumerkjaskrá eða með notkun eins og úrskurður Hugverkastofunnar ber vott um.
Til stuðnings fullyrðingu sinni um að til vörumerkjaréttar hafi stofnast á grundvelli notkunar lagði andmælandi, World Class á Íslandi, fram 538 blaðsíðna samantekt sem unnin var í tilefni af 30 ára afmæli líkamsræktarstöðvarinnar árið 2015. Hún spannar meðal annars umfjöllun, greinar, viðtöl og auglýsingar allt frá árinu 1985 fram til ársins 2015.