Um 300 fleiri börn hafa fæðst á Landspítalanum í ár en á sama tíma í fyrra. Þessi aukning er álíka mikil og fjöldi barna sem fæðist í einum mánuði. Allt stefnir í töluvert fleiri fæðingar á spítalanum en í fyrra en óvíst er hvort met verður sett.
„Það hefur ekkert farið framhjá okkur að það eru fleiri börn,“ segir Hulda Hjartardóttir, yfirlæknir fæðingarþjónustu kvenna á barnasviði Landspítalans.
Spurð segir hún spítalann ráða við þennan aukna fjölda en stundum þarf að fresta meðferðum í einn til tvo daga til að tryggja að öllum líði vel.
„Ég hugsa að það verði töluvert fleiri fæðingar í ár en undanfarin ár. Hvort það fer yfir fjölmennasta árið, sem var um 2009, veit ég ekki,“ segir hún. Í fyrra voru fæðingarnar um 4.500 en þegar metið var sett voru fæðingarnar um 5.000 talsins.
Mbl.is hefur heyrt nokkur dæmi um að konur, sem jafnvel eru komnar langt fram yfir settan dag, hafi verið beðnar um að koma síðar á fæðingardeild Landspítalans vegna plássleysis eða manneklu.
Hulda segir að fæðingum hafi fjölgað undanfarið. „Það koma alltaf hjá okkur svolitlir toppar. Eðli þjónustunnar er þannig að stundum eru fleiri konur að fæða börn í einu heldur en aðra daga.“ Hún bætir við að ef margar konur eru að fæða á svipuðum tíma þurfi spítalinn stundum að seinka fæðingum, til dæmis hjá konum sem þarf að setja af stað.
„Akkúrat þessa stundina er hellingur að gera en það getur verið allt um garð gengið seinna í kvöld eða á morgun.“
Í sumar var konum boðið að fæða á Akranesi vegna álags á Landspítalanum en ekki hefur verið þörf á því að undanförnu. Hulda segir konur samt geta leitað þangað ef þær vilja ef engir sérstakir áhættuþættir eru fyrir hendi.